Enski boltinn

Frábær auglýsing fyrir ensku úrvalsdeildina

Atli Arason skrifar
Pep Guardiola og Jurgen Klopp takast í hendur eftir leik. 
Pep Guardiola og Jurgen Klopp takast í hendur eftir leik.  Getty Images

Manchester City og Liverpool skildu jöfn, 2-2, í stórleik helgarinnar í ensku úrvalsdeildinni í gær. Leikurinn var hraður og skemmtilegur frá upphafi til enda og góð auglýsing fyrir deildina að mati knattspyrnustjóra Manchester City, Pep Guardiola.

„Þetta var rosalegur leikur og frábær auglýsing fyrir ensku úrvalsdeildina. Bæði lið ætluðu sér sigur og þeir gerðu allt til þess að vinna en mér fannst eins og við leyfðum þeim að komast í gang,“ sagði Guardiola eftir leik.

Guardiola er mjög hrifinn af liði Liverpool og því sem liðið býður upp á sóknarlega.

„Það er algjör unun að fylgjast með Liverpoool spila fótbolta, þeir eru með svo margar ógnir á sóknarhelmingi og á því er enginn vafi. Mér fannst við gera mjög vel gegn þeim og ég er ótrúlega stoltur af mínu liði.“

Guardiola segist bera mikla virðingu fyrir Jurgen Klopp, knattspyrnustjóra Liverpool. 

„Ég veit ekki hvort Jurgen virði mig en ég virði hann mjög mikið. Hann gerir mig af betri knattspyrnustjóra, lið hans eru jákvæð, árasagjörn og vilja sækja. Við erum ekki vinir, við borðum ekki kvöldverð saman. Ég er með símanúmerið hans en ég hringi samt ekki í hann. Ég virði hann mjög mikið en hann veit að næsta laugardag þá munum við reyna að sigra hann,“ sagði Pep Guardiola, knattspyrnustjóri Manchester City. Liðin tvö mætast aftur í FA bikarnum næsta laugardag.

Manchester City er á toppi ensku úrvalsdeildarinnar með eins stigs forskot á Liverpool. Það stefnir því í blóðuga baráttu um Englandsmeistaratitilinn.

„Bæði lið vita það eru sjö leikir eftir og við þurfum að vinna þessa síðustu sjö leiki því annars er þetta búið fyrir okkur,“ sagði Pep Guardiola, knattspyrnustjóri Manchester City.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×