Fótbolti

England: Róðurinn þyngist enn hjá Burnley

Sigurður Orri Kristjánsson skrifar
Teemu Pukki innsiglaði sigurinn
Teemu Pukki innsiglaði sigurinn EPA-EFE/TIM KEETON

Þremur leikjum er lokið í ensku úrvalsdeildinni í dag og var nokkuð um óvænt úrslit. Norwich City tókst að vinna sigur, West Ham tapaði og Leicester nældi sér í þrjú stig.

Í austur-Anglíu tókst heimamönnum í Norwich City að vinna sterkan 2-0 sigur í fallbaráttunni á Burnley sem á ekki sjö dagana sæla. Jóhann Berg Guðmundsson lék ekki með Burnley vegna meiðsla. Pierre Lees Melou skoraði fyrsta mark leiksins fyrir Kanarífuglana á 9. mínútu og Teemu Pukki gerði svo úti um leikinn í lokin. Norwich er enn á botni deildarinnar en Burnley er ekki langt undan, sitja í átjánda sæti og falldraugurinn farinn að minna á sig.

Leicester vann góðan 2-1 sigur á Crystal Palace á heimavelli. Ademola Lookman kom Leicester yfir á 39. mínútu og Kiernan Dewsbury-Hall bætti öðru markinu við rétt fyrir hálfleikinn. Wilfried Zaha minnkaði muninn á 65. mínútu með frákasti eftir að hafa sjálfur klikkað úr víti. Fleiri urðu mörkin ekki og Leicester komst upp fyrir Palace með sigrinum. Liðin sitja í níunda og tíunda sæti.

Brentford hélt áfram góðu gengi sínu með frekar þægilegum sigri á West Ham á heimavelli. Lokatölur leiksins urðu 2-0. Bryan Mbeumo skoraði fyrsta markið á 48. mínútu og Ivan Toney bætti öðru marki við á 64. mínútu. Brentford voru mun sterkari aðilinn í leiknum og hefðu getað skorað fleiri mörk. Brentford situr í þrettánda sætinu með 36 stig en West Ham er enn í sjötta sæti með 51 stig.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.