Frábær sigur Everton á Manchester United

Sigurður Orri Kristjánsson skrifar
Gordon skoraði sigurmarkið
Gordon skoraði sigurmarkið EPA-EFE/TIM KEETON

Gestirnir frá Manchester byrjuðu betur í leiknum án þess þó að skapa sér hættuleg færi utan við ágætis skot Marcus Rashford sem Jordan Pickford, markvörður Everton, varði í horn. Everton sóttu í sig veðrið þegar að líða tók á hálfleikinn og tókst að komast yfir á 27. mínútu leiksins.

Brasilíumaðurinn Richarlison átti þá sprett upp vinstri vænginn og lagði boltann inn á teiginn þar sem Alex Ewobi lagðiboltann út á Anthony Gordon sem beið í vítateigsboganum. Gordon skaut að marki, í mjöðmina á Harry Maguire og þaðan fór boltinn í markið. Óverjandi fyrir David De Gea í marki United sem var farinn í öfugt horn. 1-0 fyrir Everton og þannig stóðu leikar í hálfleik.

Síðari hálfleikurinn var nokkurnvegin eign Manchester United sem náði þrátt fyrir alla yfirburðina ekki að skapa sér hættuleg marktækifæri og eftir mikið japl, jarm og fuður flautaði dómari leiksins til leiksloka. Niðurstaðan 1-0, hræðileg úrslit fyrir Manchester United sem eru með 51 stig í sjöunda sæti deildarinnar. Everton eru með 28 stig í sautjánda sæti. Fjórum stigum frá Burnley.

Bein lýsing

Leikirnir
    Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.