Íslenski boltinn

Jón Páll krafði Víkinga um 26 milljónir en þarf sjálfur að borga

Sindri Sverrisson skrifar
Jón Páll Pálmason brosti í kampinn er hann var kynntur sem þjálfari Víkings Ólafsvík.
Jón Páll Pálmason brosti í kampinn er hann var kynntur sem þjálfari Víkings Ólafsvík. Víkingur Ólafsvík

Knattspyrnudeild Víkings Ólafsvík hefur verið sýknuð í Héraðsdómi Reykjavíkur af kröfu þjálfarans Jóns Páls Pálmasonar sem krafði félagið um 26 milljónir króna auk dráttarvaxta.

Jón Páll taldi uppsögn sína árið 2020 ólögmæta en samkvæmt dómi Héraðsdóms fékk hann full laun greidd frá því að vinnuframlag hans var afþakkað í júlí 2020, og fram til 1. október þegar uppsagnarákvæði í samningnum var nýtt.

Niðurstaða héraðsdóms var því sú að Jón Páll þyrfti að greiða Víkingi Ólafsvík 1,5 milljón króna í málskostnað.

Í samtali við Vísi kvaðst Jón Páll vera að skoða það að áfrýja dómnum en að ákvörðun um það lægi ekki fyrir.

Jón Páll, sem nú þjálfar yngri flokka hjá FH, var ráðinn þjálfari karlaliðs Víkings síðla árs 2019 og tók við af Ejub Purisevic sem stýrt hafði liðinu um langt árabil.

Auk þess að stýra Víkingum í 1. deildinni átti Jón Páll að hafa yfirumsjón með 2. flokki karla og gegna stöðu yfirþjálfara hjá félaginu, og var samningurinn til þriggja ára.

Óánægja hjá foreldrum og vegna utanlandsferðar

Störfum Jóns Páls í Ólafsvík lauk hins vegar í júlí 2020, eftir að hann hafði aðeins stýrt karlaliði Víkings í fimm deildarleikjum. Samkvæmt dómnum hafði óánægju þá gætt með störf hans, bæði hjá stjórn knattspyrnudeildar Víkings sem og hjá foreldrum iðkenda. 

Í því samhengi er nefnd utanlandsferð sem Jón Páll fór í án samþykkis félagsins og í máli forráðamanna þess segir að Jón Páll hafi ekki skilað sextíu klukkustunda vinnu á mánuði.

Krafa Jóns Páls nam nákvæmlega 25.940.000 krónum. Hann taldi sig eiga inni 26-föld mánaðarlaun upp á 700.000 krónur, og jafnmargar greiðslur vegna íbúðarkostnaðar (80.000 krónur á mánuði), eldsneytis (30.000 krónur á mánuði) og matarúttektar (30.000 krónur á mánuði).

Við það bættist krafa um bætur fyrir röskun á stöðu og högum, upp á þrjár milljónir króna, og miskabætur upp á eina milljón króna þar sem Jón Páll taldi að á hann hefðu verið bornar alvarlegar ávirðingar sem hefðu verið meiðandi og til þess fallnar að valda álitshnekki, eins og segir í dómnum.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.