Íslenski boltinn

Sú yngsta sem hefur fengið samning hjá knattspyrnudeild Víkinga

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Freyja Stefánsdóttir er kominn á samning hjá meistaraflokki Víkings.
Freyja Stefánsdóttir er kominn á samning hjá meistaraflokki Víkings. Instagram/@vikingurfc

Það er þekkt erlendis að klúbbar séu eru farnir að gera samning við mjög unga leikmenn og nú hafa Íslandsmeistarar Víkings stigið skref í þá átt.

Freyja Stefánsdóttir, sem er fædd í desember 2007 og þar með nýorðin fjórtán ára, hefur skrifað undir sinn fyrsta samning við Víking.

Víkingar segja frá samningum á samfélagsmiðlum sínum og þar kemur fram að Freyja sé þar með yngst til að gera samning við knattspyrnudeildina, hvort heldur kvenna- eða karlamegin.

„Freyja hefur frá barnsaldri æft og spilað með Víkingum og haldið tryggð við félagið þrátt fyrir flutning úr hverfinu og lengri leið til æfingar en flest á hennar aldri. Hún hefur spilað með öllum yngri flokkum félagsins og nú styttist i fyrsta leik með meistaraflokki,“ segir í fréttinni um samninginn.

Freyja hefur spilað með sigursælum árgöngum Víkings og þegar unnið til fjölda verðlauna með félaginu í yngri flokkum. Freyja hefur spilað flestar stöður á vellinum þó framherjastaðan sé í uppáhaldi hjá henni, enda hefur hún verið að skora grimmt. Hún var meðal markahæstu stúlkna á Íslandsmótinu í 4. flokki 2020 og önnur markahæst í fyrra, þá með meira en helming marka Víkings.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×