Enski boltinn

Ólíklegar hetjur skutu Tottenham upp í Meistaradeildarsæti

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Emerson Rayal og Matt Doherty fagna marki þess fyrrnefnda, en bakverðirnir skoruðu báðir í dag.
Emerson Rayal og Matt Doherty fagna marki þess fyrrnefnda, en bakverðirnir skoruðu báðir í dag. Ryan Pierse/Getty Images

Tottenham vann afar öruggan 5-1 sigur er liðið tók á móti Newcastle í ensku úrvalsdeildinni í dag. Sigurinn lyftir liðinu í það minnsta tímabundið upp í fjórða sæti deildarinnar, en þrír varnarmenn komu sér á blað fyrir heimamenn.

Fyrri hálfleikur var að mestu frekar bragðdaufur framan af. Það lifnaði þó yfir hlutunum þegar Fabian Schär kom gestunum í Newcastle í forystu á 39. mínútu með marki beint úr aukaspyrnu.

Heimamenn voru ekkert að vorkenna sjálfum sér of lengi því aðeins fjórum mínútum síðar jafnaði Ben Davies metin með góðu skallamarki eftir fyrirgjöf frá Heung-Min Son og staðan því 1-1 þegar flautað var til hálfleiks.

Heimamenn byrjuðu síðari hálfleikinn af miklum krafti og á 48. mínútu kom bakvörðurinn Matt Doherty Tottenham í 2-1 forystu. Sex mínútum síðar var staðan svo orðin 3-1 þegar Heung-Min Son batt endahnútinn á fallega skyndisókn.

Emerson Royal bætti fjórða marki Tottenham við á 63. mínútu áður en varamaðurinn Steven Bergwijn gulltryggði 5-1 sigur Lundúnaliðsins þegar rúmar fimm mínútur voru til leiksloka.

Tottenham situr nú í fjórða sæti deildarinnar með 54 stig efti 30 leiki. Liðið hefur jafn mörg stig og Arsenal, en er með betri markatölu. Arsenal á þó tvo leiki til góða á erkifjendur sína. 

Newcastle situr hins vegar í 15. sæti deildarinnar með 31 stig.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×