Enski boltinn

Ten Hag búinn að fara í atvinnuviðtal hjá United

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Erik ten Hag hefur tvisvar sinnum gert Ajax að Hollandsmeisturum.
Erik ten Hag hefur tvisvar sinnum gert Ajax að Hollandsmeisturum. getty/ANP

Erik ten Hag, knattspyrnustjóri Ajax, fór í atvinnuviðtal hjá Manchester United í fyrradag.

Daily Mail greinir frá þessu. Ten Hag þykir líklegastur til að taka við United af Ralf Rangnick eftir tímabilið. Hollendingurinn virðist vera vongóður um að fá starfið en hann hefur meðal annars verið í enskunámi til að undirbúa sig fyrir veruna á Englandi.

Ten Hag er þó ekki sá eini sem kemur til greina hjá United en talið er að félagið ætli einnig að ræða við Mauricio Pochettino, Luis Enrique og Julen Lopetegui. Thomas Tuchel, stjóri Chelsea, þykir ekki lengur koma til greina. United vonast til að taka ákvörðun um næsta stjóra liðsins fyrir lok næsta mánaðar.

Hinn 52 ára Ten Hag ku hafa tilkynnt Ajax að hann vilji yfirgefa félagið eftir tímabilið og reyna fyrir sér annars staðar. Hann er enn samningsbundinn Ajax og United þyrfti að greiða hollenska félaginu um fjórar milljónir punda í bætur til að fá hann lausan undan samningi.

United er í 6. sæti ensku úrvalsdeildarinnar og dottið út úr ensku bikarkeppninni og Meistaradeild Evrópu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×