Innlent

Segir nauð­syn­legt að tala ekki að­eins um flótta­fólk, heldur líka við það

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Agnes biskup segir að kirkjan sé með opinn faðminn fyrir flóttafólki.
Agnes biskup segir að kirkjan sé með opinn faðminn fyrir flóttafólki. Vísir/Vilhelm

Biskup Íslands segir kirkjuna taka flóttafólki frá Úkraínu fagnandi. Hún segir nauðsynlegt að tala ekki aðeins um flóttafólk, heldur við það.

Þetta kom fram í máli Agnesar M. Sigurðardóttir biskups í kvöldfréttum Stöðvar 2 í kvöld. Rætt var við hana á Fosshótel Rauðarárstíg, þar sem tekið er á móti úkraínsku flóttafólki.

„Kirkjan vill láta vita af því að við erum með opinn faðminn fyrir fólki frá Úkraínu eins og annað fólk hér á Íslandi, og mig langar til að segja þeim það. Ég hef nú þegar sent út til presta bæði leiðbeiningar og eitthvað um þessi mál, bænir og fleira. Þá hef ég verið að vísa til þess ástands sem er nú í Úkraínu. Við biðjum fyrir fólkinu og það er gaman að segja frá því að Úkraína hefur gefið okkur í íslensku kirkjunni miskunnarbæn sem við syngjum í kirkjunum og höfum gert mikið núna, í tvær þrjár vikur,“ sagði Agnes.

Þá sagði hún mikilvægt að fólk fyndi að það væri velkomið.

„Mér finnst líka nauðsynlegt að tala ekki um, heldur við, fólkið. Mig langaði til þess að segja þeim sjálfum hvað við höfum verið að undirbúa í kirkjunni og gera í kirkjunni og að kirkjan væri með opinn faðminn til að taka á móti þeim eins og öðrum“

Kirkjan hafi mikla reynslu af vinnu með flóttafólki, og sé meðal annars með alþjóðlegan söfnuð í Breiðholtskirkju í Reykjavík.

„Við höfum nokkra reynslu af því að vinna með fólki sem hefur komið erlendis frá sem flóttafólk. Þannig að við viljum deila þeirri reynslu með þessu fólki sem við erum að taka á móti núna.“


Tengdar fréttir



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×