Sú ákvörðun bresku ríkisstjórnarinnar að frysta eigur Romans Abramovich, eiganda Chelsea, hefur haft töluverð áhrif á starfsemi félagsins. Það má til að mynda ekki selja miða á leiki og aðeins ársmiðahafar mega mæta á þá.
Félagið ákvað því að senda inn formlega beiðni til enska knattspyrnufélagsins um að bikarleikur liðsins gegn Middlebrough næstkomandi laugardag yrði leikinn fyrir luktum dyrum. Það hefði þá þýtt að ekki einu sinni stuðningsmenn Middlesbrough hefðu mátt mæta á leikinn, en forráðamenn B-deildarliðsins skildu hvorki upp né niður í þessari beiðni.
„Það að leggja það til að Middlesbrough og stuðningsmenn félagsins verði refsað er ekki bara gríðarlega óréttlátt heldur er enginn fótur fyrir beiðninni,“ sagði meðal annars í yfirlýsingu frá félaginu.
Þá kom einnig fram í yfirlýsingunni að forráðamönnum Middlesbrough þættu útskýringar Chelsea á beiðninni kaldhæðnislegar.
„Í ljósi ástæðunnar fyrir því að Chelsea var beitt refsiaðgerðum er það mjög kaldhæðnislegt að félagið tali um heiðarleika í íþróttum sem ástæðu þess að spila ætti leikinn án áhorfenda.“
Enska knattspyrnusambandið ætlaði að taka málið fyrir á morgun, en nú hefur Chelsea hins vegar dregið beiðnina til baka. Stuðningsmenn Middlesbrough ættu því að geta mætt á heimavöll liðsins næstkomandi laugardag þegar Chelsea mætir í heimsókn í átta liða úrslitum FA-bikarsins. Middlesbrough hefur nú þegar slegið Manchester United og Tottenham úr leik, en takist þeim að skáka Evrópumeisturunum tryggir liðið sér sæti í undanúrslitum í fyrsta skipti síðan 2006.