Erlent

Rússar hafi beðið Kín­verja um að­stoð

Viktor Örn Ásgeirsson skrifar
Yang Jiechi hittir Jake Sullivan á fundi í Róm í vikunni.
Yang Jiechi hittir Jake Sullivan á fundi í Róm í vikunni. Getty/Tsuno

Bandarískir embættismenn segja Rússa hafa beðið Kínverja um hernaðargögn frá upphafi innrásar Rússa inn í Úkraínu. 

Sérfræðingar innan Hvíta hússins segja fréttirnar valda áhyggjum enda geti Kínverjar með þessu lagt stein í götu Vesturlanda, sem hafa aðstoðað Úkraínu við að verja land sitt.

Bandarísk stjórnvöld hafa ekki gefið nákvæmlega upp hverju Rússar hafi óskað eftir. Það liggur aðeins fyrir að Rússar hafi óskað eftir ótilgreindum hernaðargögnum auk annarrar aðstoðar frá upphafi innrásarinnar.

Talsmenn í Hvíta húsinu vildu ekki tjá sig við Financial Times, þegar eftir því var óskað. Þá hafa kínversk stjórnvöld ekki svarað fyrirspurnum miðilsins.

Tíðindin koma skömmu fyrir fund Yang Jiechi, sem sér um utanríkismál Kína, og Jake Sullivan, þjóðaröryggisráðgjafa Joe Biden Bandaríkjaforseta, sem fram á að fara í Róm í vikunni. Sullivan hefur varað Kínverja við því að veita Rússum fulltingi.

„Við munum tryggja að hvorki Kínverjar, né aðrir, muni bæta Rússum skaðann sem af hefur hlotist vegna innrásarinnar. Ég mun ekki fara sérstaklega út í það sem fram hefur komið í viðræðunum en við höfum átt í samskiptum við kínversk stjórnvöld og munum halda þeim áfram,“ sagði Sullivan við NBC fyrr í dag.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×