Innlent

Tæp­­­lega þrjú þúsund vildu undan­þágu frá sótt­varna­tak­­­mörkunum

Viktor Örn Ásgeirsson skrifar
Ríkisstjórnarfundur þar sem allar Covid takmarkanir voru felldar burt.
Ríkisstjórnarfundur þar sem allar Covid takmarkanir voru felldar burt. Foto: Vilhelm Gunnarsson/Vilhelm Gunnarsson

Heilbrigðisráðherra hafa borist tæplega 3.000 fyrirspurnir og beiðnir um undanþágur frá samkomutakmörkunum síðan í febrúar 2020. Ráðherra segir að fjöldinn endurspegli ekki þann sem raunverulega fékk undanþágur frá reglunum.

Í svari Willums Þórs Þórssonar heilbrigðisráðherra við fyrirspurn frá Bergþóri Ólasyni þingmanni Miðflokksins segir að undanþágur frá ákvæðum reglugerða um samkomutakmarkanir hafi verið veittar til þjóðhagslega mikilvægra fyrirtækja og aðila sem sinna velferðarþjónustu við þá hópa sem sérstaklega mega illa við röskun.

„Auk þess hafa undanþágur verið veittar í nokkrum tilvikum þegar takmarkanir hafa verið hertar með litlum fyrirvara,“ segir enn fremur í svari heilbrigðisráðherra.

Heilbrigðisráðherra svarar því ekki nákvæmlega, hve margir hafi fengið undanþágu frá sóttavarnareglum. Í svarinu er þó ítrekað að þær 3.000 undanþágubeiðnir endurspegli ekki fjölda þeirra sem raunverulega fengu undanþágu frá reglunum.

„Undanþágur sem ráðherra hefur veitt eru einungis tímabundnar þar sem reglugerðir um takmarkanir hafa verið settar tímabundið. Þó hafa kerfislega og efnahagslega mikilvæg fyrirtæki og velferðarþjónusta fengið framlengingu á undanþágum,“ segir í svari við fyrirspurn þingmannsins.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×