Erlent

Schröder til fundar við Pútín

Atli Ísleifsson skrifar
Gerhard Schröder var kanslari Þýskalands á árunum 1998 til 2005.
Gerhard Schröder var kanslari Þýskalands á árunum 1998 til 2005.

Gerhard Schröder, fyrrverandi kanslari Þýskalands, er kominn til rússnesku höfuðborgarinnar Moskvu þar sem hann mun funda með Vladimír Pútín Rússlandsforseta á morgun. Fundurinn er liður í sáttaumleitunum sem ætlað er að binda endi á stríðið í Úkraínu.

Politico greinir frá þessu og vísar í ónafngreinda heimildarmenn sem þekkja til málsins, en Schröder er með náin tengsl við ráðamenn í Moskvu.

Schröder hefur sætt harðri gagnrýni í heimalandi sínu eftir að hafa neitað að segja sig úr stjórnum rússneskra orkufyrirtækja eftir innrás Rússa í Úkraínu. Fjöldi starfsmanna skrifstofu Schröders ákvað að láta af störfum í síðustu viku vegna ákvörðunar Schröders að sitja áfram í stjórnum orkurisanna Rosneft og Gazprom.

Schröder var kanslari Þýskalands á árunum 1998 til 2005 og hefur auðgast mikið vegna stjórnarsetu sinnar eftir að kanslaratíð hans lauk.

Heimsókn Schröders til Moskvu kemur í kjölfar fundar hans og úkraínsks stjórnmálamanns sem á sæti í friðarsendinefnd landsins í Istanbúl í Tyrklandi.

Andrij Melnyk, sendiherra Úkraínu í Þýskalandi, lagði til í síðustu viku að Schröder gæti mögulegt haft milligöngu í mögulegum friðarviðræðum stjórnvalda í Rússlandi og Úkraínu.


Tengdar fréttir

Vaktin: Seðlabanki Evrópu hækkar ekki stýrivexti þrátt fyrir óvissu

Utanríkisráðherrar Rússlands og Úkraínu funda í Tyrklandi í dag. Hófstilltar væntingar eru um að viðræðurnar muni skila einhverjum árangri, þar sem báðir aðilar virðast hafa mildast í afstöðu sinni.Fréttastofa Vísis, Stöðvar 2 og Bylgjunnar fylgist með þróun mála í allan dag.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×