Erlent

Hleypa lofti úr dekkjum í skjóli nætur í þágu lofts­lags­bar­áttu

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Mynd sem hópurinn birti á dögunum þar sem sjá má félagsmann skera á dekk jepplings.
Mynd sem hópurinn birti á dögunum þar sem sjá má félagsmann skera á dekk jepplings. Tyre Estinghuisers

Hópur breskra aðgerðasinna í loftslagsmálum hefur gripið til þeirra ráða að hleypa lofti úr dekkjum hundruð jeppa og jepplinga í stórborgum Bretlands. Hópurinn vill útrýma slíkum bílum á þéttbýlum svæðum.

Á ensku nefnist hópurinn Tyre extinguisher sem er leikur að enska orðinu fyrir slökkvitæki (Fire extinguisher).

Á heimasíðu hópsins segir að markmið hans sé einfalt. Að gera að ómögulegt að eiga fyrirferðamikla jeppa og jepplinga á þéttbýlum svæðum í Bretlandi. Telur hópurinn að slíkir bílar eigi ekkert erindi á þessum svæðum.

Vinsældir jepplinga aukist mikið

Fjallað var um hópinn á BBC í vikunni þar sem greint var frá því að skorið hafi verið á dekk fjölmargra jeppa og jepplinga í London.

Aðferðin er ekki flókin. Meðlimir hópsins fara í skjóli nætur um hverfi stórborga og hleypa lofti úr dekkjum fyrirferðarmikilla jeppa og jepplinga sem verða á vegi þeirra. Skilinn er eftir miði þar sem ástæða dekkjaástungunnar er útskýrð.

Meðlimir hópsins virðast vera dreifðir um allt Bretland en á Twitter-síðu hans kemur fram að skorið hafi verið á dekk í hverfum London, Liverpool, Edinborg í Skotlandi, Brighton og víðar.

Segist hópurinn vera að verja sig gegn loftlagsbreytingum, mengun og ökumönnum sem hagi sér án ábyrgðar í umferðinni.

Jepplingar hafa notið mikilla vinsælda á undanförnum árum og bílaframleiðendur lagt æ meira púður í að framleiða slíka bíla.

Árið 2018 var hins greint frá því að vinsældir jepplinganna þýða að hægar gengur að draga úr eldsneytiseyðslu bifreiða en áður og þar með úr losun þeirra á gróðurhúsalofttegundum sem valda loftslagsbreytingum á jörðinni.

Markmið hópsins er sem fyrr segir að gera eigendum slíkra bíla erfiðara um vik.

„Við erum að gera þetta vegna þess að ríkisstjórnin og stjórnmálamenn hafa ekki verndað okkur gegn þessum risabílum. Það hata þá allir, nema þeir sem keyra þessa bíla,“ segir á vef hópsins.

„Við viljum búa í bæum og borgum með hreinu lofti og öruggum strætum. Að biðja fallega um það hefur ekki virkað, það er tími aðgerða.“

Uppfært - Í fyrstu útgáfu þessarar fréttar stóð að meðlimir hópsins skæru á dekkin. Það er ekki rétt, þess í stað er loftinu hleypt úr dekkjunum. Beðist er velvirðingar á þessari rangfærslu.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×