Erlent

Í­halds­maður kjörinn nýr for­seti Suður-Kóreu

Atli Ísleifsson skrifar
Yoon Suk-yeol er nýr forseti Suður-Kóreu. Hann hefur áður starfað sem ríkissaksóknari landsins.
Yoon Suk-yeol er nýr forseti Suður-Kóreu. Hann hefur áður starfað sem ríkissaksóknari landsins. AP

Íhaldsmaðurinn Yoon Suk-yeol er nýr forseti Suður-Kóreu. Hann vann nauman sigur í forsetakosningum þar sem hann hafði betur gegn Lee Jae-myung, frambjóðenda stjórnarflokksins Lýðræðsflokksins.

Yoon, sem er að stíga sín fyrstu skref í stjórnmálum, hét því í kosningabaráttunni að berjast gegn stéttarskiptingu í landinu og sagði niðurstöður kosninganna „mikinn sigur fyrir suður-kóresku þjóðina“. Innan við eitt prósent munaði á atkvæðum þeirra Yoon og Lee.

Yoon, sem hefur áður starfað sem ríkissaksóknari landsins og lögmaður, ávarpaði stuðningsmenn sína seint í nótt og sagðist þar ætla að sem forseti að huga að lífsafkomu Suður-Kóreumanna, tryggja „hlýja“ velferðarþjónustu fyrir bágstagga og gera allt sem í hans valdi stæði til að tryggja að Suður-Kórea verði stoltur og ábyrgur meðlimur í samfélagi þjóða og hinum frjálsa heimi.

Í frétt BBC segir að báðir frambjóðendur, þeir Yoon og Lee, hafi átt á brattann að sækja og var baráttunni lýst sem „baráttu hinna óvinsælu“. Þrátt fyrir það reyndist kjörsókn nokkuð mikil, eða 77 prósent.

Lee Jae-myung beið lægri hlut í forsetakosningunum.AP

Kosningabaráttan snerist að stærstum hluta um hækkandi húsnæðisverð í landinu, stöðnun í efnahagslífi landsins, hátt hlutfall atvinnulausra í yngstu aldurshópunum og kynjamisrétti.

Yoon naut sérstakra vinsælda meðal ungra karlmanna sem margir hverjir fullyrtu að ekkert kerfisbundið kynjamisrétti væri að finna í Suður-Kóreu. Yoon sagðist sömuleiðs ætla sér að leggja niður ráðuneyti kynjajafnréttis- og fjölskyldumála kæmist hann til valda.

Um utanríkismálin sagðist Yoon vilja að „endurstilla“ samskiptin við Kínverja og Norður-Kóreu á sama tíma og hann hefur gefið í skyn að hann vilja auka samstarfið við Bandaríkin.

Yoon tekur við embættinu af Moon Jae-in, en stjórnarskrá landsins kemur í veg fyrir að forseti geti setið lengur en í fimm ár. Lýðræðisflokkurinn er með meirihluta á þinginu, svo erfiðlega gæti gengið fyrir Yoon að ná einhverjum baráttumálum sínum í gegn.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×