Fótbolti

Shakhtar Donetsk flytur brasilíska leikmenn úr landi

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Úkraínska úrvalsdeildarfélagið Shakhtar Donetsk hefur komið brasilísku leikmönnunum sínum úr landi.
Úkraínska úrvalsdeildarfélagið Shakhtar Donetsk hefur komið brasilísku leikmönnunum sínum úr landi. Pavlo Bagmut / Ukrinform/Future Publishing via Getty Images

Úkraínska knattspyrnufélagið Shakhtar Donetsk hefur flutt alla tólf brasilísku leikmenn liðsins yfir til Rúmeníu eftir að innrás Rússa í Úkraínu hófst.

Í samstarfi við evrópska knattspyrnusambandið UEFA hefur félagið unnið að því að koma tólf brasilískum leikmönnum sínum frá átökunum sem geysa um landið.

Dinamo Kiyv og SK Dnipro-1 hafa einnig náð að flytja erlenda leikmenn sína frá Úkraínu að sögn forsvarsmanna Shakhtar Donetsk.

„Okkur langar að þakka öllum þeim sem aðstoðuðu okkur í þessu ferli að koma leikmönnum burt,“ segir í yfirlýsingu frá Shakhtar.

„Það sem gerði okkur kleift að flytja þessa leikmenn frá landinu var persónuleg aðstoð frá forseta UEFA Aleksander Ceferin, forseta úkraínska knattspyrnusambandsins Andrii Pavelko og forseta moldóvska knattspyrnusambandsins Leonid Oleinichenko.“

Shaktar situr á toppi úkraínsku úrvalsdeildarinnar, en liðið hefur ekki leikið deildarleik síðan 11. desember á seinasta ári. Þá fór deildin í vetrarfrí og var svo sett á ís eftir innrás Rússa.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×