Innlent

Búast við að virkja viðbragð við Keflavíkurflugvöll

Sunna Karen Sigurþórsdóttir skrifar
Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir utanríkisráðherra.
Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir utanríkisráðherra. Vísir/Vilhelm

„Það sem kann að gerast er að virkjaðar verði viðbragðsáætlanir, varnaráætlanir, sem myndi þá og gæti þýtt - jafnvel óháð því hvort það yrði gert að aukinn viðbúnaður, aukin viðvera, aukið eftirlit og þar er Keflavíkursvæðið mikilvægt svæði. Og svona strategísk staðsetning okkar hér gerir það að verkum að það má búast við því að það verði aukinn viðbúnaður, aukið eftirlit og frekara viðbragð, hér eins og annars staðar.“

Þetta kom fram í máli Þórdísar Kolbrúnar Reykfjörð Gylfadóttur utanríkisráðherra á Alþingi í dag, þar sem rætt var um innrás Rússa í Úkraínu. Ríkisstjórnin hefur öll fordæmt árásina og lýst yfir mikilli sorg yfir þeim hörmungum sem nú dynja yfir.

„Þetta er sorgardagur og atburðir næturinnar boðberi einhvers sem ég held að ég get fullyrt að við höfum öll leyft okkur að vona að við þyrftum ekki að upplifa og fyrst og fremst óbreyttir borgarar í Úkraínu þyrftu ekki að upplifa. Hvað dugir til? Ef ég bara vissi þá myndi ég segja það upphátt,“ sagði Þórdís Kolbrún.

Hún sagðist vona að Evrópusambandið, Bandaríkin, Bretar og aðrir sem hafi tilkynnt um efnahagslegar þvinganir séu tilbúin að ganga lengra.

„Og ég veit að Evrópusambandið ræðir það í dag um næsta stóra skref sem er þá af miklum þunga og þessar allsherjar efnahagslegar þvinganir,“ sagði hún. Íslensk stjórnvöld muni áfram standa með þeim í því.

„Fórnarkostnaður við að gera það sem við getum til þess að verja frelsið án þess að fara í beinhörð átök - að sjálfsögðu erum við tilbúin til þess að bera hann. Það sem skiptir máli hér er að við stöndum saman, að við segjum hátt og skýrt í hvaða liði við erum. Hvar við staðsetjum okkur og gerum það sem við getum þar sem við getum það. Við erum herlaus þjóð, við höfum skyldum að gegna. Við höfum táknrænum skyldum að gegna. Við erum hér með svæði, viðbúnað, stuðning, þjónustu, samninga, sem skipta máli og mér finnst gott að finna fyrir því að ríkin í kringum okkur vita það, bera virðingu fyrir því og við erum fullir þátttakendur í því og við höfum svo sannarlega hlutverki að gegna.“

Rætt var við Þórdísi Kolbrúnu og Katrínu Jakobsdóttur forsætisráðherra í aukafréttatíma Stöðvar 2 í dag. 


Tengdar fréttir



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×