Fótbolti

Dagný fimmtíu sekúndur að skora sigurmark Íslands

Sindri Sverrisson skrifar
Íslenska liðið fagnar marki Dagnýjar Brynjarsdóttur strax í upphafi leiksins við Nýja-Sjáland.
Íslenska liðið fagnar marki Dagnýjar Brynjarsdóttur strax í upphafi leiksins við Nýja-Sjáland. Getty/Omar Vega

Íslenska kvennalandsliðið í fótbolta fékk draumabyrjun í fyrsta leik sínum í SheBelieves Cup í Bandaríkjunum í nótt þegar liðið vann Nýja-Sjáland, 1-0.

Dagný Brynjarsdóttir skoraði eina mark leiksins, í sínum 98. A-landsleik, eftir aðeins 50 sekúndna leik. 

Karólína Lea Vilhjálmsdóttir tók þá hornspyrnu og sendi boltann inn að markteig og eftir léttan darraðardans tókst Dagnýju að koma boltanum yfir marklínuna.

Ísland var nálægt því að auka muninn á fyrsta korteri leiksins. Dagný átti hættulegan skalla eftir langt innkast Sveindísar Jane Jónsdóttur en þær nýsjálensku björguðu nánast á marklínu, og þær Karólína, Sveindís og Agla María Albertsdóttir fengu allar færi.

Leikurinn jafnaðist eftir þetta en fleiri mörk voru ekki skoruð og Ísland, sem í fyrsta sinn er þátttakandi á SheBelieves Cup, byrjar mótið vel. 

Næsti leikur er gegn Tékkum seint á sunnudagskvöld að íslenskum tíma en Tékkland gerði markalaust jafntefli við Bandaríkin í nótt.

Dagný hefur nú skorað 33 mörk í 98 A-landsleikjum og er þriðja markahæst í sögu landsliðsins á eftir Hólmfríði Magnúsdóttur (37 mörk) og Margréti Láru Viðarsdóttur (79 mörk). 

Glódís Perla Viggósdóttir lék einnig sinn 98. A-landsleik og þær Dagný gætu því náð 100 leikja markinu spili þær gegn Tékklandi á sunnudagskvöld og lokaleik mótsins gegn Bandaríkjunum aðfaranótt fimmtudags.

Lið Íslands gegn Nýja-Sjálandi: Cecilía Rán Rúnarsdóttir; Sif Atladóttir (Ásta Eir Árnadóttir 67.), Glódís Perla Viggósdóttir, Guðrún Arnardóttir (Ingibjörg Sigurðardóttir 67.), Hallbera Guðný Gísladóttir, Gunnhildur Yrsa Jónsdóttir (Karitas Tómasdóttir 85.), Karólína Lea Vilhjálmsdóttir (Alexandra Jóhannsdóttir 67.), Dagný Brynjarsdóttir, Sveindís Jane Jónsdóttir, Agla María Albersdóttir (Amanda Jacobsen Andradóttir 85.), Berglind Björg Þorvaldsdóttir (Svava Rós Guðmundsdóttir 46.).




Fleiri fréttir

Sjá meira


×