Innlent

Anna Hildur kjörin formaður SÁÁ

Eiður Þór Árnason skrifar
Anna Hildur Guðmundsdóttir gegnir stöðunni fram að aðalfundi í vor.
Anna Hildur Guðmundsdóttir gegnir stöðunni fram að aðalfundi í vor. Samsett

Anna Hildur Guðmundsdóttir var kjörin formaður SÁÁ og Þráinn Farestveit varaformaður á fundi aðalstjórnar samtakanna í dag. Bryndís Rós Morrison og Sigurður Ragnar Guðmundsson voru jafnframt kosin ný inn í framkvæmdastjórn.

Einar Hermannsonar sagði nýverið af sér sem formaður vegna vændiskaupa. Þá hætti Sigurður Friðriksson einnig sem varaformaður SÁÁ. 

Anna Hildur og Þráinn taka við hlutverki formanns og varaformanns fram að aðalfundi SÁÁ, sem áformað er að halda í vor. Þetta kemur fram í tilkynningu frá SÁÁ en á aðalfundinum verður þriðjungur 48 manna aðalstjórnar samtakanna endurnýjaður. Á fyrsta fundi nýrrar stjórnar eftir aðalfund kýs hún formann og varaformann SÁÁ úr sínum hópi svo og fulltrúa í framkvæmdastjórn.

Anna Hildur starfaði um árabil sem áfengis- og vímuefnaráðgjafi hjá SÁÁ og hefur frá 2018 gegnt sama starfi á fjölskyldusviði Akureyrarbæjar. Þráinn, sem er afbrotafræðingur að mennt, hefur verið framkvæmdastjóri Verndar fangahjálpar í rúm tuttugu ár.

Engin ró innan SÁÁ

Mikil ólga hefur ríkt innan SÁÁ að undanförnu en nýlega sagði Arnþór Jónsson, fyrrverandi formaður samtakanna, sig úr aðalstjórn þeirra og kvaðst hafa þurft að þola ofbeldishótanir á stjórnarfundum. Þó dró Þóra Kristín Ásgeirsdóttir formannsframboð sitt til baka þremur dögum eftir að hún varð við áskorun 40 af 48 stjórnarmanna. Sakaði hún fólk innan SÁÁ um að hafa unnið gegn framboðinu og safnað glóðum elds að höfði sér úr hennar einkalífi.

Þá olli Arnþór uppnámi þegar hann spurði hvort Þóra Kristín gæti staðfest að ekkert væri til í orðrómum um að Kári Stefánsson, forstjóri ÍE og stjórnarmaður í SÁÁ, hafi keypt vændi. Kári hefur sjálfur hafnað ásökununum en bæði hann og Þóra Kristín hafa sagt sig úr aðalstjórn SÁÁ.


Tengdar fréttirAthugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.