Erlent

Minntust Miu og kölluðu eftir bættu öryggi á næturlífinu

Sunna Karen Sigurþórsdóttir skrifar
Vitað er að Mia Skadhauge Stevn hafði verið að skemmta sér á Jomfru Ane Gade í Álaborg, gengið svo Borgergade til vesturs og svo Vesturbrú til suðurs þar sem hún settist upp í bílinn.
Vitað er að Mia Skadhauge Stevn hafði verið að skemmta sér á Jomfru Ane Gade í Álaborg, gengið svo Borgergade til vesturs og svo Vesturbrú til suðurs þar sem hún settist upp í bílinn. Lögregla í Danmörku

Fjöldi fólks kom saman í Álaborg í nótt til þess að minnast tuttugu og tveggja ára konu sem var myrt á hrottafenginn hátt um síðustu helgi. Leit af henni hefur staðið alla vikunna og tveir hafa verið ákærðir fyrir morðið.

Mia Skadhauge Stevn sást síðast þegar hún fór út að skemmta sér í miðbæ Álaborgar á Jótlandi aðfaranótt sunnudags. 

Á öryggismyndavélum sést hún ein á gangi og setjast upp í dökkan fólksbíl um klukkan sex um morguninn. Umfangsmikil leit hefur staðið yfir en síðdegis á fimmtudag fundust líkamsleifar af konu.

Það var síðan staðfest í gærkvöld að um væri að ræða jarðneskar leifar Miu. Tveir menn eru í haldi og hafa verið ákærðir fyrir morðið, en aðeins annar þeirra situr í gæsluvarðhaldi.

Báðir neita þeir sök en alls óvíst er hvort þeir hafi tengst Miu á nokkurn hátt. Þá hefur enn ekki tekist að færa sönnur á að mennirnir hafi ráðið henni bana.

Umfangsmikil rannsókn stendur yfir en hún er að miklu leyti bundin við skóginn Drottningarlund, þar sem líkamsleifarnar fundust.

Atburðurinn hefur skapað ótta og óöryggi - ekki síst hjá ungum konum. Mikil sorg ríkir í landinu og hafa kerti og blóm verið lögð á staðinn sem Mia sást síðast. Þá kom fólk saman með kyndla og minntist Miu í nótt og kallaði eftir bættu öryggi á næturlífinu.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×