Erlent

Major sakar Johnson um óheiðarleika og aðför að lýðræðinu

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
John Major er ómyrkur í máli um framgöngu Johnson síðustu misseri.
John Major er ómyrkur í máli um framgöngu Johnson síðustu misseri.

Boris Johnson braut sóttvarnalög, virðist ekki halda að reglurnar eigi við sig og hefur skapað vantraust á stjórnmálunum sem ógnar lýðræðislegri framtíð Bretlands.

Þetta sagði John Major, fyrrverandi forsætisráðherra Breta, í ræðu sem hann hélt í Lundúnum í vikunni.

Major sagði flokksbróður sinn og núverandi forsætisráðherra hafa sent ráðherra til að ganga erinda sinna og „verja hið óverjanlega“. Sannleikurinn virtist „valkvæður“ í augum Jonson en framganga hans hefði valdið orðstýr Bretlands á alþjóðavettvangi hnekkjum.

Tilefni fordæmingar Major er svokallað „partygate“ en lögreglan í Lundúnum rannsakar nú að minnsta kosti tólf samkomur sem áttu sér stað í Downing-stræti og víðar á meðan sóttvarnalög voru í gildi um allt Bretland.

„Lýðræðið okkar er viðkvæmur strúktúr; það er ekki ósigrandi virki. Það getur fallið ef enginn gerir athugasemd við það sem er rangt né berst fyrir því sem er rétt,“ sagði Major í ræðu sinni.

Forsætisráðherrann fyrrverandi sagði Johnson og samstarfsmenn hans hafa brotið sóttvarnalög og brugðist við uppljóstrunum um brotin með óheiðarleika.

„Ósvífnar afsakanir voru skáldaðar. Dag eftir dag var almenningur beðinn um að trúa hinu ótrúlega. Ráðherrar voru sendir út af örkinni til að verja hið óverjandi, sem lét þá virðast auðtrúa eða kjánalega,“ sagði Major.

Hann sagði enga ríkisstjórn starfhæfa ef grafið hefði verið undan trúverðugleika hennar og að ekki mætti gera lítið úr vantrausti kjósenda í garð stjórnmálanna.

„Það má vera að hægt sé að finna með afsökun fyrir hvert og eitt brot, og fleiri, en heilt á litið segja þau aðra sögu,“ sagði Major. „Forsætisráðherrann og ríkjandi stjórn véfengja ekki bara lögin heldur virðast halda að þau, og aðeins þau, þurfi ekki að fara að reglum, hefðum, siðum... hvað sem þú vilt kalla það, opinbers lífs.“

Major sagði að sú trú að það væru ein lög fyrir stjórnvöld og önnur fyrir alla aðra væri pólitískur dauðadómur og að það væri nú að koma í bakið á Johnson.

Guardian greindi frá. Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.