Erlent

Biden fordæmir „hatursfulla“ löggjöf gegn hinsegin fræðslu

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Andstæðingar frumvarpsins hafa meðal annars áhyggjur af því hvaða áhrif lögin muni hafa á sjálfsmynd hinsegin barna og ungmenna.
Andstæðingar frumvarpsins hafa meðal annars áhyggjur af því hvaða áhrif lögin muni hafa á sjálfsmynd hinsegin barna og ungmenna. epa/Cristobal Herrera

Joe Biden Bandaríkjaforseti gagnrýnir harðlega frumvarp sem liggur fyrir þinginu í Flórída, þar sem kveðið er á um bann gegn því að minnast á samkynhneigð í barnaskólum.

Ríkisstjórinn Ron DeSantis virðist styðja frumvarpið og þá hefur það nægilegan stuðning í þinginu til að verða að lögum á næstu dögum eða vikum. Andstæðingar þess segja það kynda undir fordóma gegn hinsegin fólki en fylgismenn að það snúist um að tryggja rétt foreldra.

Frumvarpið mun meðal annars gera foreldrum kleift að höfða mál á hendur skólastjórnendum ef fjallað er um samkynhneigð í kennslu 5 til 11 ára barna.

Forsetinn, eða aðstoðarmaður hans fyrir hann, tísti í fyrradag að hann vildi að allt hinsegin fólk vissi að það væri elskað og samþykkt nákvæmlega eins og það væri. „Ég styð við bakið á ykkur og ríkisstjórn mín mun halda áfram að berjast fyrir þeirri vernd og því öryggi sem þið verðskuldið,“ sagði hann.

Kallaði hann umrætt frumvarp „hatursfullt“.

Eins og sakir standa eru lög í gildi í fjórum ríkjum Bandaríkjanna sem banna umræðu um aðrar kynhneigðir en gagnkynhneigð í barnaskólum. Ríkin eru Louisiana, Mississippi, Oklahoma og Texas.

Þá samþykkti löggjafinn í Tennessee og Montana lög í fyrra þar sem kveðið var á um að foreldrar hefðu til þess heimild að krefjast þess að börnin þeirra væru ekki látin sitja undir umræðu um kynhneigð eða kynvitund.

Bannið í Flórída kveður á um fræðslu í barnaskólum en í frumvarpinu eru skólastjórnendur einnig hvattir til að forðast umræðu um hinsegin málefni almennt, þegar það þykir ekki hæfa aldri eða þroska nemenda.

DeSantis sagði á mánudag að skólar ættu að einbeita sér að kennslu vísinda og sögu og forðast umfjöllun um „óviðeigandi viðfangsefni“. Þá snérist málið raunverulega um að leyfa foreldrum að hafa eitthvað um það að segja hvað gerðist í skólastofunni.

BBC fjallar um málið.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×