Erlent

Boris Johnson „ekki algjör trúður“ að mati nýs ráðgjafa hans

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Boris Johnson, forsætisráðherra Bretlands.
Boris Johnson, forsætisráðherra Bretlands. EPA/Jessica Tayolor

Boris Johnson, forsætisráðherra Bretlands, er „ekki algjör trúður,“ ef marka má orð nýs samskiptastjóra hans sem tók við stöðunni á dögunum.

Þetta sagði samskiptastjórinn nýji, Guto Harri, í viðtali við velskan fjölmiðil á dögunum. BBC fjallar um viðtalið.

Þar segir að Harri hafi verið ráðinn eftir að nokkur fjöldi ráðgjafa Johnson og starfsmenn breska forsætisráðuneytisins sögðu upp störfum eftir að bráðabirgðaniðurstöður skýrslu um partíhald að Downingstræti tíu á tímum samkomutakmarkana voru birtar.

„Hann er ekki algjör trúður, hann er ágætis eintak,“ sagði Harri við velska fjölmiðilinn.

Svo virðist sem að Harri og Johnson hafi skemmt sér vel í aðdraganda ráðningarinnar. Greindi Harri frá því að Johnson hefði sungið fyrir hann nokkrar línur úr slagararnum vinsæla „I Will Survive“. Var það vísun í þá erfiðu stöðu sem Johnson stendur frammi fyrir þessi misserin. Hefur hann mátt þola harða gagnrýni vegna partíhalds í Downingstræti tíu á tímum samkomutakmarkana.

„Við settumst niður og áttum góðar samræður um hvernig við gætum komist aftur á beinu brautina og hver næstu skref verða,“ sagði Harri um samskipti þeirra eftir að Johnson söng línurnar frægu úr lagi Gloriu Gaynor.

Fréttir af fundi Harri og Johnson hafa farið misvel ofan í þá sem fylgjast með stjórnmálum þar í landi. Þannig sagði Nicola Sturgeon, fyrsti ráðherra Skotlands, að samskipti Harri og Johnson á fundinum væri til marks um það að þeir tækju stöðuna ekki alvarlega.

Lögreglan í London hefur hafið rannsókn á samkvæmum sem haldin voru í Downingstræti tíu á tímum samkomutakmarkana í Bretlandi. Verið er að rannsaka hvort brot voru framin á sóttvarnalögum en uppljóstranir um samkvæmi hafa valdið Johnson miklum vandræðum.


Tengdar fréttir

Fimm nánir aðstoðarmenn Borisar segja upp

Fjórir háttsettir starfsmenn forsætisráðuneytis Bretlands hafa sagt upp störfum í kjölfar þess að bráðabirgðaniðurstöður skýrslu um partíhald að Downingstræti tíu á tímum samkomutakmarkana voru birtar. Þar á meðal eru starfsmannastjóri ráðuneytisins og einkaritari Borisar Johnson, forsætisráðherra.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.