Innlent

Leggja til próf­kjör hjá Sjálf­stæðis­flokknum í borginni

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Stjórn Varðar, fulltrúaráðs sjálfstæðisfélaganna í Reykjavík, mun leggja til almennt prófkjör hjá Sjálfstæðisflokknum í borginni á fulltrúaráðsfundi í næstu viku.
Stjórn Varðar, fulltrúaráðs sjálfstæðisfélaganna í Reykjavík, mun leggja til almennt prófkjör hjá Sjálfstæðisflokknum í borginni á fulltrúaráðsfundi í næstu viku. Vísir/Vilhelm

Stjórn Varðar, fulltrúaráðs sjálfstæðisfélaganna í Reykjavík, mun á fulltrúaráðsfundi næskomandi fimmtudag leggja til að boðað verði til almenns prófkjörs flokksins fyrir komandi borgarstjórnarkosningar.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Verði, þar sem segir að stjórnin hefði ákveðið þetta á fundi sínum í kvöld. Tillagan lýtur að því að boða til prófkjörs 12. mars næstkomandi, þar sem kjörskrá verði afmörkuð við flokksskrá tveimur vikum fyrir kjördag.

Tillagan verður því borin undir fulltrúaráðið á fundinum næsta fimmtudag.

Áður lagt upp með leiðtogaprófkjör

Áður hafði Vörður lagt fyrir fulltrúaráðið að ráðast í leiðtogaprófkjör, en ekki almennt prófkjör. Sú ákvörðun reyndist nokkuð umdeild en meðal þeirra sem undruðust ráðstöfunina var borgarfulltrúinn Hildur Björnsdóttir, sem sækist eftir oddvitasæti flokksins fyrir borgarstjórnarkosningarnar.

Eyþór Arnalds, núverandi oddviti Sjálfstæðismanna í borginni, lýsti hins vegar ánægju með leiðtogaprófkjör, en á þeim tíma hugðist hann sækjast eftir því að leiða flokkinn áfram í borginni. Skömmu síðar dró hann framboð sitt hins vegar til baka af persónulegum ástæðum.

Sem stendur er Hildur sú eina sem hefur lýst því yfir að hún vilji leiða flokkinn í borginni, en Marta Guðjónsdóttir, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, gaf það út í upphafi mánaðar að hún íhugaði nú að bjóða sig fram í oddvitasætið gegn Hildi.

Sveitarstjórnarkosningarnar hér á landi fara síðan fram 14. maí næstkomandi.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×