Innherji

Eyþór Arnalds dregur framboð sitt til baka

Ritstjórn Innherja skrifar
Eyþór Arnalds, oddviti Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík, hyggst ekki gefa kost á sér til endurkjörs.
Eyþór Arnalds, oddviti Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík, hyggst ekki gefa kost á sér til endurkjörs. Vísir/Vilhelm

Eyþór Arnalds, oddviti Sjálfstæðismanna í borginni, er hættur við að bjóða sig fram á nýjan leik í oddvitasæti Sjálfstæðisflokksins í borginni af persónulegum ástæðum. Þetta kom fram í tilkynningu frá Eyþóri rétt í þessu á Facebook. Hann segist þar muni gegna skyldum sínum út kjörtímabilið og láta svo af þátttöku í stjórnmálum að sinni.

Á Facebook tiltekur Eyþór enn fremur að þeir sem þekki hann viti að hann óttist ekki niðurstöður prófkjörs. Hann sé viss um að Sjálfstæðisflokkurinn muni vinna góðan kosningasigur í vor. Framundan sé löng og ströng kosningabarátta sem kalli á að allt annað víki á meðan. Hann hafi komist að þeirri niðurstöðu að hann þurfi og vilji meiri tíma til að sinna sér og sínu, heimili og hugðarefnum. Þá segist hann muni leggja sitt að mörkum til að vinna Sjálfstæðisflokknum brautargengi í kosningunum í vor.

Eyþór tilkynnti um framboð sitt í Silfri Ríkisútvarpsins þann 17. október síðastliðinn. Þann 8. desember tilkynnti svo Hildur Björnsdóttir, sem nú skipar annað sætið á eftir Eyþóri, í Íslandi í dag að hún ætlaði sér líka í oddvitann.

Eyþór segir Sjálfstæðisflokkinn búa að því að þar sé stór og breið forystusveit og enginn hörgull á fólki til þess að taka við því og leiða Sjálfstæðisflokkinn til sigurs.

Stefnt er að því að prófkjör Sjálfstæðisflokksins verði haldið þann 26. febrúar næstkomandi.

Færsla Eyþórs Arnalds í heild sinni

Kæru vinir.

Ég hef ákveðið að gefa ekki kost á mér á framboðslista Sjálfstæðisflokksins í borgarstjórnarkosningunum í vor.

Ég mun að sjálfsögðu gegna skyldum mínum út kjörtímabilið og láta síðan af þátttöku í stjórnmálum að sinni.

Ákvörðun mín er tekin af persónulegum ástæðum, ekki pólitískum. Ég er þess fullviss að Sjálfstæðisflokkurinn mun vinna góðan sigur í vor og þeir sem þekkja mig vita að ég óttast ekki niðurstöður í nokkru prófkjöri. Eins er rétt að árétta að ákvörðunin er algjörlega óháð því hvaða fyrirkomulag sjálfstæðismenn í Reykjavík kjósa að viðhafa við val á framboðslista eða hvaða einstaklingar munu gefa kost á sér í því vali.

Fram undan er löng og ströng kosningabarátta sem kallar á að allt annað víki á meðan. Ég hef einfaldlega komist að þeirri niðurstöðu að ég þurfi og vilji meiri tíma til að sinna mér og mínu, heimili og hugðarefnum. Nú er það annarra að taka við keflinu í því boðhlaupi sem pólitíkin er.

Sjálfstæðisflokkurinn býr að því að þar er stór og breið forystusveit og enginn hörgull á fólki til þess að taka við því og leiða Sjálfstæðisflokkinn til sigurs. Það verður sigur Reykjavíkur og Reykvíkinga.

Ég vil þakka öllum þeim sem hafa verið mér samferða á þessari pólitísku vegferð í borginni síðustu fjögur árin, bæði liðsmönnum og mótherjum. Sérstaklega þakka ég auðvitað öllum þeim sem hafa stutt mig dyggilega með ráðum og dáð. Því fólki verð ég ævarandi þakklátur.

Ég óska Sjálfstæðisflokknum velfarnaðar í komandi kosningum og ég mun leggja mitt af mörkum til að vinna Sjálfstæðisflokknum brautargengi í vor.

Þá vil ég nota tækifærið og óska öllum gleðilegra jóla og friðar og farsældar á nýju ári.

Eyþór Arnalds.
Innherji er nýr sjálfstæður áskriftarmiðill innan Vísis sem mun einkum beina kastljósinu að viðskiptalífinu, efnahagsmálum og stjórnmálum. Fyrst um sinn verður efnið endurgjaldslaust og aðgengilegt öllum á Vísi en með tímanum verður einungis hægt að nálgast Innherja gegn greiðslu. Áhersla er lögð á vandaðar fréttir, fréttaskýringar, viðtöl og hlaðvörp auk þess sem Innherja er ætlaður að vera vettvangur skoðanaskipta fólks úr atvinnulífinu og stjórnmálum.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.