Erlent

Íhuga að falla frá skyldubólusetningu heilbrigðisstarfsmanna

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Samtök ljósmæðra segja reglurnar munu setja fæðingaþjónustuna úr skorðum.
Samtök ljósmæðra segja reglurnar munu setja fæðingaþjónustuna úr skorðum.

Stjórnvöld á Englandi hafa það nú til skoðunar að falla frá skyldubólusetningum framlínustarfsmanna í heilbrigðisþjónustu. Samkvæmt gildandi reglum ber öllum þeim sem falla í þann hóp að vera fullbólusettir 1. apríl næstkomandi.

Þeir sem hyggjast fara að reglunum þurfa að þiggja fyrri skammtinn fyrir lok þessarar viku en samkvæmt opinberum tölum eru enn um 77 þúsund starfsmenn opinbera heilbrigðiskerfisins enn óbólusettir.

Heilbrigðisráðherrann Sajid Javid sagði í síðustu viku að reglurnar um skyldubólusetningar væru til skoðunar. Þær hefðu verið settar þegar delta-afbrigðið var alsráðandi en nú, þegar hið mildara ómíkron hefði tekið yfir, væri rétt að endurskoða þær.

Ráðherrann sagði hins vegar á sama tíma að það væri „skylda“ heilbrigðisstarfsmanna að láta bólusetja sig.

Ýmis fagfélög hafa kallað eftir frestun, þeirra á meðal samtök ljósmæðra. Forsvarsmenn þeirra segja það myndu hafa hörmulegar afleiðingar fyrir fæðingaþjónustuna í landinu ef staðið verður við tímamörkin, vegna skorts á starfsfólki.

Fjöldi heilbrigðisstarfsmanna hefur mótmælt reglunum og sumir sagst íhuga að flytja til annarra landa innan Bretlands þar sem ekki er gerð krafa um bólusetningu, það er að segja Skotlands eða Wales.

Áætlað er að um 40 þúsund manns hafi misst störf í félagsþjónustu vegna reglna um skyldubólusetningu. Sérfræðingar segja það hafa haft hrikalegar afleiðingar í för með sér fyrir þjónustuna.

Ítarlega frétt um málið má finna hjá BBC.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×