Erlent

Einn stærsti einkaskóli Queensland setur samkynhneigða undir sama hatt og barnaníðinga

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Skólastjórnendur setja samkynhneigð undir sama hatt og barna- og dýraníð.
Skólastjórnendur setja samkynhneigð undir sama hatt og barna- og dýraníð. Google Maps

Einn af stærstu einkareknu skólum Queensland í Ástralíu hefur sent foreldrum barna sem hyggjast sækja um í skólanum samninga, þar sem kveðið er á um að „samkynhneigðir gjörningar“ séu ósiðlegir og á pari við barna- og dýraníð.

Samningurinn gerir einnig ráð fyrir því að komið verði fram við nemendur til samræmis við það kyn sem þeir fengu úthlutað við fæðingu; kynið sem guð gaf þeim.

Citipoint Christian College er rekinn af Citipoint sem er svokölluð „ofurkirkja“ og hefur verið líkt við Hillsong í Sydney, sem hefur fylgjendur út um allan heim. Nemendur skólans, sem er staðsettur í Brisbane, eru sagðir 1.720 talsins en um 30 þúsund manns hafa skrifað undir yfirlýsingu þar sem fyrrnefndum samningum er mótmælt.

Í svokallaðri „trúaryfirlýsingu“ í skráningarsamningunum segir meðal annars að kynlíf sé eitthvað sem eigi aðeins að eiga sér stað á milli karls og konu sem hafa gengið í hjónaband. Aðrar kynlífsathafnir, þeirra á meðal kynlíf samkynhneigðra, sifjaspell og barna- og dýraníð, séu ósiðlegar og eyðileggjandi afl í persónulegum samböndum og samfélaginu í heild.

Þá segir að guð hafi skapað mann og konu og að þar sem gera þurfi greinamun, til dæmis hvað varðar útlit og þátttöku í íþróttum, verði það gert útfrá líffræðilegu kyni.

Skólameistarinn hefur ekki viljað svara spurningum fjölmiðla en sagði í yfirlýsingu að verið væri að gefa börnum og foreldrum kost á því að taka upplýsta ákvörðun um inngöngu í skólann. Allir væru elskaðir og virtir óháð lífstíl, jafnvel þótt val einstaklinga gengi gegn trú og trúartjáningu Citipoint.

Guardian greindi frá.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.