Íslenski boltinn

Hafa byrjað öll tímabil í efstu deild á öldinni með Skagamann sem þjálfara

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Jón Þór Hauksson tók við liði ÍA í gær.
Jón Þór Hauksson tók við liði ÍA í gær. Vísir/Bára

Skagamenn héldu í hefðina þegar þeir fundu eftirmann Jóhannesar Karls Guðjónssonar. Skagamaðurinn Jón Þór Hauksson mun stýra liði ÍA í úrvalsdeild karla í sumar en það var tilkynnt í dag.

Jóhannes Karl Guðjónsson hætti sem þjálfari ÍA á dögunum og hóf störf hjá íslenska A-landsliðinu. Skagamenn leituðu til Jóns Þórs Haukssonar sem hafði ráðið sig sem þjálfara Vestra. Jón Þór hætti með Ísafjarðarliðið og snýr aftur heima á Skagann.

Þetta þýðir að ÍA hefur byrjað öll tímabil í efstu deild á öldinni með Skagamann sem þjálfara og það breytist ekki á komandi tímabili.

Þorvaldur Örlygsson er eini þjálfari ÍA í úrvalsdeild karla á öldinni sem er ekki Skagamaður. Þorvaldur tók við 19. júní 2013 eftir að Þórður Þórðarson sagði upp störfum.

Síðasti þjálfarinn til að byrja tímabil án þess að vera Skagamaður er Logi Ólafsson sem þjálfaði ÍA sumarið 1999.

Ólafur Þórðarson tók við af honum og síðan hafa Skagamenn þjálfað liðið fyrir utan síðustu fimmtán leikina á 2013 tímabilinu.

Þessir Skagamenn eru Arnar Gunnlaugsson, Bjarki Gunnlaugsson, Ólafur Þórðarson, Guðjón Þórðarson, Þórður Þórðarson, Gunnlaugur Jónsson, Jón Þór Hauksson og loks Jóhannes Karl Guðjónsson.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×