Erlent

Tugir dæmdir til dauða fyrir morðið á sérfræðingum SÞ í Kongó

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifar
Zaida Catalan og Michael Sharp voru myrt í Austur-Kongó árið 2017.
Zaida Catalan og Michael Sharp voru myrt í Austur-Kongó árið 2017. Getty/Artur Widak

Um fimmtíu manns voru dæmdir til dauða í Austur-Kongó í gær í tengslum við morðið á tveimur sérfræðingum Sameinuðu þjóðanna árið 2017. 

Svíinn Zaida Catalan og Bandaríkjamaðurinn Michael Sharp voru að rannsaka átök stjórnarhers Austur-Kongó og vígahópa í héraðinu Kasai í mars 2017 þegar þau voru stöðvuð af hópi vopnaðra manna, flutt á akur og tekin af lífi. 

Yfirvöld í Kongó kenndu Kamuina Nsapu vígahópnum um morðin og tóku í fyrstu fyrir að nokkur opinber starfmaður hefði komið að morðunum. Síðar var ofursti í kongóska hernum handtekinn og nokkrir aðrir opinberir starfsmenn, sem sögðust vinna með vígamönnunum, vegna morðanna. 

Mannréttindahópar hafa lýst því yfir að þau telji yfirvöld hafa hundsað aðkomu háttsettra embættismanna að morðunum og fjölskyldur Catalan og Sharp hafa þá sagt að þau telji að skipuleggjendur morðanna hafi ekki verið í hópi þeirra sem voru dæmdir. 

Réttarhöldin hafa staðið yfir í nær fimm ár en þeim hefur ítrekað seinkað vegna dauða grunaðra í gæsluvarðhaldi. Herdómstóll dæmdi loks í málinu í gær. 

Meðal þeirra sem dæmdir voru til dauða var Thomas Nkashama, maður sem vann við landamæragæslu á svæðinu og talinn er hafa hitt Catalan og Sharp daginn fyrir morðin. Jean de Dieu Mambweni, ofursti sem hitti þau áður en þau lögðu af stað í verkefnið, var dæmdur í tíu ára fangelsi. 

Fjöldi sakborninga, sem dæmdir voru sekir, var ekki viðstaddur við dómsuppkvaðninguna. Margir þeirra höfðu annað hvort ekki verið handteknir eða sloppið úr varðhaldi. 



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×