Innlent

Fimm­tán greinst í tengslum við hóp­sýkingu á lyf­lækninga­deild

Eiður Þór Árnason skrifar
Landspítalinn í Fossvogi.
Landspítalinn í Fossvogi. Vísir/Vilhelm

Sex sjúklingar og níu starfsmenn hafa greinst með Covid-19 á lyflækningadeild B7 á Landspítalanum í Fossvogi á síðustu dögum þar sem nokkuð útbreidd hópsýking er komin upp.

Deildin er lokuð og verða skimanir og smitrakning framkvæmdar áfram næstu daga. Greint er frá þessu í tilkynningu frá farsóttanefnd Landspítalans. Már Kristjánsson, yfirlæknir á smitsjúkdómadeild spítalans og formaður farsóttanefndar, sagði í samtali við fréttastofu í gær að búið væri að loka fyrir innlagnir á lyflækningadeildina vegna hópsýkingar.

Fram kom í morgun að 38 sjúklingar væru með Covid-19 á spítalanum, þar af 26 í einangrun. Á gjörgæslu eru 4, allir í öndunarvél og einn í hjarta- og lungnavél. Alls voru 35 sjúklingar með sjúkdóminn á Landspítalanum í gær.

Þrír í einangrun á Landakoti

Á Landakoti eru nú þrír sjúklingar í einangrun vegna Covid-19 og vonast stjórnendur til að þeir ljúki henni í þessari viku.

Að sögn farsóttanefndar er smitsjúkdómadeildin því sem næst full og tekur lungnadeildin nú bæði COVID-sjúklinga sem eru að ná sér af COVID-sýkingu og almenna sjúklinga.

Vel hefur gengið að flytja sjúklinga út á land og telur nefndin mjög mikilvægt að því samstarfi verði haldið áfram á næstu vikum, mánuðum og helst til frambúðar.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×