Innlent

Blasir við að stefni í afléttingar

Snorri Másson skrifar
Már Kristjánsson yfirlæknir á smitsjúkdómadeild Landspítalans.
Már Kristjánsson yfirlæknir á smitsjúkdómadeild Landspítalans. Vísir/Vilhelm

Heilbrigðisráðherra kveðst hafa allar mögulegar afléttingar á samkomutakmörkunum til skoðunar. Forstjóri Landspítalans segir að ef farið verði í afléttingar þurfi að gera það í fáum en öruggum skrefum. Ástandið hefur batnað á spítalanum að sögn yfirlæknis.

Lokametrar þessarar bylgju faraldursins eru fram undan, segir í grein Willums Þórs Þórssonar heilbrigðisráðherra og Guðlaugar Rakelar Guðjónsdóttur forstjóra Landspítala sem birtist á Vísi í morgun. Allar mögulegar afléttingar séu nú í skoðun, í samráði við Þórólf og með hliðsjón af skynsemi og öryggi.

„Þetta er skoðað út frá mjög morgum vinklum, ekki bara út frá spítalanum heldur líka samfélaginu og smitdreifingu og svo framvegis. En við erum enn þá með ótrúlega mörg smit. Þannig að það þarf að vanda vel til og taka þetta í fáum en öruggum skrefum,“ segir Guðlaug Rakel í samtali við fréttastofu.

Fjórir eru á gjörgæslu á spítalanum vegna veirunnar en aðeins einn þeirra sem er enn með virkt Covid-smit. Að sögn Más Kristjánssonar yfirlæknis á smitsjúkdómadeildinni er klárt mál að álagið er í rénun. Það gefi tilefni til endurskoðaðra aðgerða innan spítalans. En í samfélaginu?

„Það eru aðrir sem taka ákvarðanir um það en mér finnst mjög líklegt að það takmörkunum í samfélaginu verði aflétt og mér finnst það bara blasa við að það muni vera gert,“ segir Már.

Hópsýking varð á lyflækningadeild sjúkrahússins um helgina, þar sem fleiri en tíu greindust, bæði sjúklingar og starfsfólk.

„Þetta þýðir það að það er ekki hægt að leggja inn á deildina á meðan,“ segir Már.

Sá hópur sem verði verst úti séu eftir sem áður óbólusettir.

„Það er alltaf brýnt að þeir sem eru óbólusettir eða vanbólusettir þurfa að halda áfram og klára sína bólusetningu. Það er okkar besta vörn,“ segir Már.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.