Innlent

Vill jafna leikinn og hjálpa þol­endum að rjúfa þögnina

Eiður Þór Árnason skrifar
Haraldur Þorleifsson hefur látið til sín taka í umræðunni um kynferðisbrot á síðustu misserum.
Haraldur Þorleifsson hefur látið til sín taka í umræðunni um kynferðisbrot á síðustu misserum. Mynd/Ueno

Haraldur Þorleifsson, stjórnandi hjá Twitter og stofnandi hönnunarfyrirtækisins Ueno, tilkynnti í dag að hann vilji aðstoða þolendur kynferðisofbeldis við að losna undan trúnaðarsamningum við gerendur. Hann segist vilja jafna leikinn og hjálpa þolendum að rjúfa þögnina.

„Ég er með góða lögfræðinga sem ég get fengið til að skoða mál og það er örugglega hægt að opna flesta af þessum samningum,“ segir Haraldur í samtali við Vísi.

Hann segist hafa heyrt um nokkra slíka samninga hér á landi en hafi meiri reynslu af trúnaðarsamningum sem starfsmenn geri í ríkum mæli við atvinnurekendur í Bandaríkjunum þar sem hann starfaði um nokkurt skeið.

„Mjög oft eru þessi samningar mjög hæpnir, þeir eru ekki endilega eitthvað sem hægt er framfylgja eða nokkur myndi framfylgja en það er kannski svolítil hræðsla við að skoða það.“

Haraldur segir að kveikjan að tístinu hafi verið umræða um slíka samninga á samfélagsmiðlum. Telur hann fullt tilefni til að skoða þessi tilfelli nánar hér á landi.

Þrátt fyrir það sé einnig mikilvægt að virða það ef þolendur kjósa að greina ekki frá reynslu sinni af einhverjum ástæðum.

„En mér finnst allavega að það eigi ekki að stoppa á því hvort einhver kostnaður fylgi því eða einhverri hræðslu við að lenda í lögfræðingum. Ég held að það sé ekki góð ástæða til að segja ekki frá,“ segir Haraldur.

Fólk líklega í erfiðri stöðu

Aðspurður um það hvers vegna hann vilji bjóða fram aðstoð sína í slíkum málum segir Haraldur að hann vilji með þessu reyna að jafna stöðu þolenda og gerenda.

„Ég ímynda mér og reikna með því að fólk sem geri svona þöggunarsamning sé að gera það út frá mjög ójöfnu sambandi, þar sem annars vegar er aðili sem er væntanlega fjársterkur með lögfræðinga og peninga sem hann getur sett í að kaupa þögn og hins vegar manneskja sem vantar peninginn það mikið að hún er tilbúin til að sætta sig við að það sé kannski að einhverju leyti brotið á þeim aftur svona.“

„Mér datt í hug að þetta væri leið til að jafna leikinn, og það væri hægt að hjálpa þessu fólki ef það vill hjálp við að komast út úr þessum samningum sem það sér mögulega eftir að hafa gert eða jafnvel þurfti að gera en vill samt fá að segja sína sögu.“

Haraldur biður fólk sem þiggur aðstoð um að senda honum einkaskilaboð á Twitter. Tvö erindi höfðu borist þegar hann athugaði stöðuna um tveimur tímum eftir að hann birti ákallið.

„Fyrir utan það þá langar mig líka að sjá hver væri svo djarfur að kæra einhvern fyrir að brjóta svona samning, það væri mjög áhugavert mál,“ bætir Haraldur við.

Hyggist standa við sitt

Haraldur greindi frá því síðasta sumar að hann vildi greiða lögfræðikostnað þeirra sem tónlistarmaðurinn Ingólfur Þórarinsson hafi stefnt vegna ummæla sem tengdust ásökunum um kynferðisbrot. Þá lýsti Haraldur því einnig yfir að hann ætlaði að greiða miskabætur þeirra ef til þess kæmi.

Haraldur segist hafa verið í sambandi við tvo aðila vegna mála Ingólfs, betur þekktur sem Ingó Veðurguð.

Fyrsta meiðyrðamálið sem Ingólfur höfðaði vegna ummæla sem féllu um hann á samfélagsmiðlum síðasta sumar var á dagskrá Héraðsdóms Reykjavíkur í gær. Um er að ræða mál á hendur Sindra Þór Sigríðarsyni Hilmarssyni en hann er einn sex einstaklinga sem Ingólfur hefur höfðað meiðyrðamál gegn.

„Ef eitthvað fólk verður dæmt í þessu máli, sem ég auðvitað vona að verði ekki gert þeirra vegna, þá náttúrulega stend ég við það sem ég sagði,“ segir Haraldur.


Tengdar fréttir

Býðst líka til að borga miska­bætur

Haraldur Þorleifsson, frumkvöðull, hefur boðist til að greiða miskabætur sem Ingólfur Þórarinsson Veðurguð hefur krafið fimm um að greiða sér. Hann greinir frá þessu á Twitter.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×