Enski boltinn

Ungstirnið Elanga kom Man Utd á bragðið eftir ömur­legan fyrri hálf­leik

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Elanga kom Man Utd á bragðið í kvöld.
Elanga kom Man Utd á bragðið í kvöld. EPA-EFE/PETER POWELL

Manchester United vann 3-1 útisigur á Brentford í síðari leik kvöldsins í ensku úrvalsdeildinni. Eftir hörmungar fyrri hálfleik stigu gestirnir upp og sóttu stigin þrjú.

Fyrri hálfleikur leiksins var eign heimamanna. Eini leikmaður Manchester United með meðvitund var David De Gea í markinu en hann varði tví- eða þrívegis mjög vel. Ekki í fyrsta skipti sem Spánverjinn heldur sínum mönnum inn í leikjum í vetur.

Ralf Rangnick hefur lesið yfir hausamótunum á sínum mönnum í hálfleik því í þeim síðari var allt annað að sjá gestina. Eftir aðeins tíu mínútna leik hafði hinn 19 ára gamli Anthony Elanga komið Man Utd yfir.

Hann fékk sendingu inn á teig Brentford frá Fred, tók við boltanum sem skoppaði upp í loftið svo Elanga endaði á að skalla boltann framhjá Jonas Lössl í marki heimamanna. Skemmtileg afgreiðsla hjá Svíanum unga sem fagnaði gríðarlega.

Sjö mínútum síðar var staðan orðin 2-0 en Bruno Fernandes lagði boltann þá Mason Greenwood sem var fyrir opnu marki og gat ekki annað en skorað. 

Fernandes fékk skemmtilega sendingu frá Cristiano Ronaldo í aðdraganda marksins en Ronaldo „kassaði“ þá boltann fyrir fætur Bruno sem óð að marki. Ronaldo var tekinn af velli í kjölfarið og var allt annað en sáttur.

Varamaðurinn Marcus Rashford gulltryggði svo sigurinn þegar hann þrumaði boltanum upp í þaknetið úr þröngu færi eftir sendingu Fernandes. Ivan Toney minnkaði reyndar muninn fyrir heimamenn eftir langt innkast heimamanna þegar fimm mínútur lifðu leiks.

Gestirnir voru smeykir eftir að hafa hent frá sér tveggja marka forystu gegn Aston Villa nýverið en tókst að sigla sigrinum heim og næla þar með í stigin þrjú.

Manchester United er í 7. sæti deildarinnar með 35 stig að loknum 21 leik. Brentford er í 14. sæti með 23 stig.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.