Á annað þúsund manns hafa greinst daglega smitaðir af Covid-19 undanfarna daga. Innlögnum á spítala hefur þó frekar farið fækkandi.Vísir/Vilhelm
Þeir sem þurfa að fara í smitgát, í framhaldi af smitrakningu, þurfa ekki lengur að fara í hraðpróf við upphaf og lok smitgátar frá og með morgundeginum. Þeir þurfa þó að fara gætilega í 7 daga og í PCR próf ef einkenni koma fram. Þá getur fólk sem fær kórónuveiruna nú farið út í göngutúr ólíkt því sem áður var.
Þetta kemur fram í tilkynningu frá heilbrigðisráðuneytinu en Willum Þór Þórsson, heilbrigðisráðherra, hefur staðfest reglugerð þessa efnis.
Þessar breytingar á reglum um smitgát eru gerðar í samræmi við tillögur Þórólfs Guðnasonar sóttvarnalæknis. Í minnisblaði hans til ráðherra kemur fram að af tæplega 16.500 einstaklingum sem sættu smitgát á fyrstu 16 dögum þessa árs greindist aðeins um 1% með Covid-smit í kjölfar prófs. Stór hluti þeirra var börn.
Þeir sem eru í smitgát mega sækja vinnu og skóla og sinna nauðsynlegum erindum.
Þá má mega einstaklingar í einangrun vegna Covid-19 nú fara í göngutúra ólíkt því sem áður var. Þeir þurfa að halda sig í að minnsta kosti 2 metra fjarlægð frá öðrum vegfarendum og mega ekki fara á fjölsótt svæði. Miðað er við tvær gönguferðir á dag sem mega vera að 30 mínútur í senn.
Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir segist að óbreyttu ekki munu skila inn tillögum um nýjar sóttvarnaaðgerðir fyrr en hyllir undir að núgildandi reglugerð falli úr gildi, sem gerist 2. febrúar næstkomandi.
Börn sextán ára og yngri voru upp undir helmingur þeirra sem greindust með kórónuveiruna í gær, en aðeins einu sinni frá upphafi faraldursins hafa fleiri greinst smitaðir. Sóttvarnalæknir segir að nýtt spálíkan um fjölda innlagna á Landspítala sé öllu svartsýnna en það fyrra, þó ekki megi lesa of mikið í líkindaspár.
Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.