Erlent

Metfjöldi látinna í Ástralíu og álagið eykst víða

Samúel Karl Ólason skrifar
Skimað fyrir Covid-19 í Sydney í Ástralíu.
Skimað fyrir Covid-19 í Sydney í Ástralíu. EPA/FLAVIO BRANCALEONE

Aldrei hafa fleiri Ástralar dáið vegna Covid-19 en gerðu í dag. Alls dóu 77 vegna faraldursins en það er nýtt met. Gamla metið var 57 og var það sett á síðasta fimmtudag. Faraldurinn er í töluverðri uppsveiflu víða um heim en mikil fjölgun smitaðra vegna ómíkorn-afbrigðisins hefur aukið álag á heilbrigðiskerfi.

Innlagnir á sjúkrahús í Ástralíu hafa sömuleiðis aldrei verið fleiri. Ríkisstjórn landsins hefur minnt forsvarsmenn ríkja landsins á samkomulag sem gert var í upphafi faraldursins um að einkarekin sjúkrahús geti létt undir álagið á heilbrigðiskerfið, samkvæmt frétt ABC.

Greg Hunt, heilbrigðisráðherra, segir þau sjúkrahús búa yfir fjölmörgu hæfu starfsfólki sem hægt sé að nota í faraldrinum.

Samkvæmt frétt Reuters greindust 73 þúsund nýsmitaðir undanfarinn sólarhring en á fimmtudaginn var fjöldi nýsmitaðra í 150 þúsund. Frá upphafi faraldursins hafa um 1,6 milljónir Ástrala greinst smitaðir af Covid-19 og þar af um 1,3 milljónir á síðustu tveimur vikum.

2.776 hafa dáið í Ástralíu.

Mikið álag á sjúkrahúsum í Frakklandi

Álag á heilbrigðiskerfi hefur einnig aukist verulega í Frakklandi. Heilbrigðisráðuneytið sagði í gær að 888 hefðu verið lagðir inn á sjúkrahús þann daginn og í heildina væru þeir 25.775. Það er mesta dagsaukning frá því í nóvember 2020, áður en bólusetningar hófust í landinu.

Alls eru 3.913 á gjörgæslu og fjölgaði þeim um 61, samkvæmt frétt Reuters.

Heilbrigðisyfirvöld búast við því að fjöldi nýsmitaðra hafa mögulega náð hámarki og að innlagnir og veikindi nái hámarki á næstu misserum.

Sjá einnig: Lög til að gera ób­ól­u­sett­um líf­ið leitt taka gild­i á næst­u dög­um

Fyrstu samkomutakmarkanirnar í Japan

Í Japan eru ráðamann að íhuga að grípa til samkomutakmarkana vegna mikillar dreifingar kóronuveirunnar. AP fréttaveitan segir að hingað til hafi slíkum aðgerðum aldrei verið beitt þar og þess í stað hafa yfirvöld beðið eigendur veitinga- og skemmtistaða um að loka snemma.

Búist er við því að samkomutakmörkunum verði komið á á föstudaginn.

„Smituðum fjölgar á fordæmalausum hraða,“ hefur fréttaveitan eftir Hirokazou Matsuno, heilbrigðisráðherra.

Í Japan hafa um áttatíu prósent íbúa fengið tvo skammta bóluefnis en einungis eitt prósent hafa fengið aukaskammt. Ríkisstjórnin hefur heitið því að gefið verði í við dreifingu aukaskammta en það verði ekki fyrr en eftir mars.

Búast við mikilli fjölgun smitaðra á næstu vikum

Adam Niedzielski, heilbrigðisráðherra Póllands, varaði við því í gær að fimmta bylgja Covid-19 væri skollin á landinu. Hann býst við því að um miðjan febrúar nái fjöldi nýsmitaðra um 60 þúsund á dag.

Þann 1. apríl 2021 greindust 35.251 smitaðir í Póllandi og það er hæsti fjöldi nýsmitaðra sem greinst hefur á einum degi í Póllandi.

Reuters segir frá því að á föstudaginn hafi þrettán af sautján meðlimum í ráðgjafaráði forsætisráðherra Póllands sagt af sér. Þeir fordæmdu skort á undirbúningi og vöruðu við því að þessi fimmta bylgja myndi valda gífurlegu álagi á heilbrigðiskerfi landsins.

Dr. Konstanty Szuldrzynski, sagði í gær að það væri ekki bara vegna lágs hlutfalls bólusettra að rúmlega hundrað þúsund manns hefðu dáið í Póllandi. Það væri líka vegna þess að heilbrigðiskerfi landsins væri úr sér gengið.


Tengdar fréttir

Hafa á­hyggjur af tví­burafar­aldri in­flúensu og Co­vid-19

Inflúensan er snúin aftur til Evrópu og dreifist á ógnarhraða um álfuna, eftir heilt ár í hýði. Áhyggjur eru uppi um að faraldur innflúensu muni auka álag á heilbrigðiskerfi á meðan hann geisar á sama tíma og heimsfaraldur kórónuveiru. 

Jákvæð teikn á lofti í Lundúnum, New York og víðar

Svo virðist sem að hægja sé á smitum sums staðar í Bretlandi og Bandaríkjunum. Hin margumrædda kúrfa er að fletjast út í Lundúnum, suðaustur- og austurhluta Englands og hægt hefur á greiningum í norðurhluta landsins.

Bretar stytta einangrun úr sjö dögum í fimm

Fólk sem greinist með Covid-19 á Englandi þarf einungis að sæta einangrun í fimm daga að lágmarki í stað sjö frá og með næsta mánudegi. Þetta tilkynnti Sajid Javid, heilbrigðisráðherra Breta, í neðri málstofu breska þingsins í dag.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.