Útskrift úr einangrun verður áfram háð því að einstaklingar geti framvísað tveimur neikvæðum hraðprófum við lok tímabilsins. Fram að þessu gat fólk losnað úr einangrun á áttunda degi ef það fékk neikvæða niðurstöðu á sjötta og sjöunda degi.
Ráðherrar telja að stytting einangrunar muni draga úr umfangsmiklum starfsmannavanda í heilbrigðiskerfinu, samgöngum og skólum, þar sem mikill fjöldi starfsmanna í sóttkví og einangrun getur raskað mikilvægri grunnþjónustu. Breska ríkisútvarpið BBC greinir frá.
Javid sagði í skýrslu sem hann flutti á þinginu að gögn frá Heilbrigðisöryggisstofnun Bretlands bendi til að tveir af hverjum þremur einstaklingum sem greinist með Covid-19 séu ekki lengur smitandi eftir fimm daga í einangrun. Vonast stjórnvöld til þess að geta gripið aðra með notkun hraðprófa.
Hraðprófin ná ekki öllum
Heilbrigðisráðherrann sagði að markmiðið með breytingunni væri að hámarka virkni fólks í efnahagslífinu og menntakerfinu. Á sama tíma sé dregið úr hættunni á því að fólk útsetji aðra eftir að það losnar úr einangrun.
Javid bætti við að 79% fullorðinna Breta sem hafi verið boðinn örvunarskammtur hafi nú fengið hann og yfir 91% í aldurshópnum 50 ára og eldri.
Sérfræðingar hafa bent á að hraðpróf nái ekki öllum þeim sem séu enn smitandi að lokinni einangrun. Gögn benda til að mynda til að tveir af hverjum fimm sem hafi losnað úr einangrun eftir sjö daga að undangengnum hraðprófum hafi enn verið smitandi.