Erlent

Um­sókn Breiviks um reynslu­lausn tekin fyrir í dag

Atli Ísleifsson skrifar
Anders Behring Breivik var árið 2012 dæmdur í 21 árs fangelsisvist fyrir að myrða 77 manneskjur í sprengingu í Osló og skotárás í Útey árið 2011.
Anders Behring Breivik var árið 2012 dæmdur í 21 árs fangelsisvist fyrir að myrða 77 manneskjur í sprengingu í Osló og skotárás í Útey árið 2011. AP

Umsókn norska fjöldamorðingjans og hryðjuverkamannsins Anders Behring Breivik um reynslulausn verður tekin fyrir í Skien-fangelsinu, suðvestur af Osló í dag.

Íþróttasalur fangelsisins verður nýttur sem réttarsalur næstu daga, en Breivik afplánar dóminn í einangrun og hefur því lítið sem ekkert samneyti við aðra fanga.

Eftir að Breivik mætti inn í íþróttasalinn heilsaði hann að nasistasið og sneri sér að fjölmiðlamönnum. Hann var sömuleiðis með miða með skilaboðum fastan á jakka sínum og áletrun á tösku sinni.

21 árs fangelsi

Breivik var árið 2012 dæmdur í 21 árs fangelsisvist fyrir að myrða 77 manneskjur í sprengingu í Osló og skotárás í Útey. Þó er hægt að framlengja fangelsisvistina þannig að hann sitji inni það sem eftir er ævinnar. Þegar dómur var kveðinn upp kom fram að hann gæti í fyrsta lagi sótt um reynslulausn að tíu árum liðnum.

Eftir að réttarhöld voru sett í morgun spurði verjandi Breiviks, Øystein Storrvik, hvort hægt væri að notast við gamla nafn skjólstæðings síns, Anders Behring Breivik, í stað þess nafns sem hann tók upp fyrir nokkrum árum, Fjotolf Hansen. Saksóknarar höfðu ekkert á móti því.

Fram á fimmtudag eða föstudag

Saksóknarinn í málinu, Hulda Karlsdóttir, flutti svo sína upphafsræðu þar sem hún rökstuddi ástæður þess að ekki væri rétt að veita Breivik reynslulausn.

Reiknað er með að réttarhöldin standi fram á fimmtudag eða mögulega föstudag.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.