Innlent

Kerfið hafi ekki bol­­magn til þess að sinna heimilis­lausum sem þurfa í sótt­kví

Elísabet Inga Sigurðardóttir skrifar
Kristín Davíðsdóttir er verkefnastýra Frú Ragnheiðar.
Kristín Davíðsdóttir er verkefnastýra Frú Ragnheiðar. sigurjón ólason

Velferðarkerfið hefur ekki bolmagn til þess að halda utan um hóp þeirra sem þurfa í sóttkví en eru heimilislausir eða eiga við vímuefnavanda að stríða. Þetta segir verkefnastýra Frú Ragnheiðar sem segir jafnframt að mikið álag sé á athvörfum fyrir heimilislausa.

Í upphafi faraldursins höfðu húsnæðislausir tök á að dvelja á farsóttarhóteli þegar þeir þurftu í sóttkví. Vegna fjölda smitaðra taka farsóttarhótelin nú einungis við fólki í einangrun og á þessi hópur fólks því erfitt með að halda sig á einum stað í sóttkví.

Álag á athvörfum fyrir heimilislausa

„Þau hafa athvörfin en það er mjög mikið álag á athvörfunum eins og staðan er núna fyrir utan að það er erfitt að hólfa niður og framfylgja ítrustu sóttvarnareglum þar,“ sagði Kristín Davíðsdóttir, verkefnastýra Frú Ragnheiðar.

Skaðaminnkunarúrræðið Frú Ragnheiður þjónustar húsnæðislausa og þá sem nota vímuefni um æð. Kristín segir að reynt sé eftir fremsta magni að koma til móts við skjólstæðinga í sóttkví.

„Þau hringja í okkur og við höfum verið að veita þeim „drop off“ þjónustu og reynt að koma til móts við aðstæður eins og hægt er.“

Hópur með flóknar þjónustuþarfir

Þjónusta við þennan hóp fellur undir velferðarþjónustu og segir Kristín að vegna almennrar manneklu á því sviði hafi kerfið ekki bolmagn til þess að halda utan um hópinn í faraldrinum.

„Þetta er hópur sem er með mjög miklar og flóknar þjónustuþarfir og þar af leiðandi þarf mannskap og mikið utanumhald.“

Hótel borgarinnar taka á móti einstaklingum í sóttkví en Kristín segir að skjólstæðingar Frú Ragnheiðar eigi oft erfitt með að fá inn þangað.

„Þau geta farið á hótelin en það eru ekki öll hótel sem bjóða þau velkominn. Það er dýrt að vera á hóteli. Þau eru alla jafna ekki í launaðri vinnu þannig það gerir þeim líka erfitt fyrir og þar að auki eru þetta einstaklingar sem þurfa að fara út og útvega sér efni og það segir sig sjálf að þú getur ekki haldið þig heima þegar þú ert í þessari stöðu.“



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×