Erlent

Lögmaður Giuffre segir hana ekki munu sætta sig við fjárhagslega sátt

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Lögmaður Giuffre segir hana vilja uppreist æru fyrir sig og aðra þolendur.
Lögmaður Giuffre segir hana vilja uppreist æru fyrir sig og aðra þolendur. AP/Bebeto Matthews

Virginia Giuffre mun að öllum líkindum ekki sætt sig við sátt í málinu gegn Andrési Bretaprins ef hún felur aðeins í sér fjárhagslegar skaðabætur. Lögmaður Giuffre segir hana vilja að sannleikurinn verði leiddur í ljós, fyrir sig og aðra þolendur Jeffrey Epstein.

Dómari í New York komst að þeirri niðurstöðu í vikunni að vísa máli Giuffre gegn Andrési ekki frá dómi. Þetta þýðir að prinsinn þarf annað hvort að fylgja málinu eftir alla leið eða leita sátta við Giuffre, sem hefur sakað hann um að hafa nauðgað sér í þrígang þegar hún var 17 ára gömul.

„Ég held að það sé afar mikilvægt fyrir Virginiu Giuffre að þetta mál verði leyst þannig að það hún og hinir þolendurnir fái uppreist æru,“ sagði David Boies í samtali við BBC og á þar líklega við önnur fórnarlömb Jeffrey Epstein, vinar Andrésar, sem Giuffre segir hafa selt sig mansali.

Giuffre og lögmenn hennar hefðu leitað til Andrésar og teymis hans og lagt til að þau settust niður og kæmust að sátt í málinu en Andrés hefði ekki haft áhuga á því á þeim tíma. „Hvort það hefur breyst eða ekki mun tíminn leiða í ljós,“ sagði Boies.

Hann sagði Giuffre ekki myndu hafa áhuga á sátt sem snérist aðeins um peninga.

Andrés er nú í mikilli klemmu, þar sem hann neyðist til að semja, grípa til varna eða fá sjálfkrafa á sig dóm.AP/Steve Parsons

Andrés stendur nú frammi fyrir því að Giuffre greini frá því í smáatriðum fyrir dómi sem hún segir hafa átt sér stað milli sín og prinsins. Kunnugir segja afar ólíklegt að Andrés myndi ferðast til New York til að bera vitni en að hann yrði tilneyddur til að gera það í gegnum fjarfundabúnað.

Prinsinn á þann kost að hunsa réttarhöldin algjörlega en það myndi verða til þess að dómur myndi sjálfkrafa falla Giuffre í vil. Hann yrði aldrei framseldur til að afplána dóm en afleiðingarnar yrðu verulegar, bæði fyrir hann og bresku konungsfjölskylduna. 



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×