Erlent

Svínshjarta grætt í mann í fyrsta sinn

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Hjartaskurðlæknirinn Griffith og David Bennett, maðurinn með svínshjartað.
Hjartaskurðlæknirinn Griffith og David Bennett, maðurinn með svínshjartað. University of Maryland School of Medicine

Læknar í Bandaríkjunum hafa grætt svínshjarta í mann, í aðgerð sem talin er marka tímamót í læknavísindunum. Hin átta tíma langa aðgerð var framkvæmd á föstudag og þegar greint var frá fréttunum í gær var líðan sjúklingins með ágætum.

„Það býr til púls, það skapar þrýsting; það er hjartað hans,“ sagði Bartley Griffith, hjartalæknirinn sem framkvæmdi aðgerðina. „Það gengur og lítur eðlilega út. Við erum gríðarlega ánægð en vitum ekki hvað gerist á morgun. Þetta hefur aldrei áður verið gert.“

Líffæraþeginn, David Bennett eldri, ákvað að slá til þegar Griffith leitaði til hans með hugmyndina en hann þjáist af hjartasjúkdóm sem hefði leitt hann til dauða. Allar aðrar meðferðir voru fullreyndar og Bennett svo veikur að útilokað var að hann fengi líffæri úr manni.

„Það var annað hvort að deyja eða gangast undir þessa aðgerð,“ sagði Bennett fyrir aðgerðina. „Ég vil lifa. Ég veit að þetta er áhættusamt en fyrir mig er þetta lokaúrræðið.“

Griffith segir samtalið hafa verið eftirminnilegt og ansi skrýtið. „Ég sagði: Við getum ekki látið þig fá hjarta úr manni; þú uppfyllir ekki skilyrðin. En kannski getum við notað hjarta úr dýri; svíni. Það hefur aldrei verið gert áður en ég held við getum það.“

„Ég var ekki viss um að hann hefði skilið mig,“ bætir Griffith við. „En svo sagði hann: Mun ég hrína?“

Eftirspurnin meiri en framboðið

Í fyrra þáðu yfir 41 þúsund Bandaríkjamenn líffæragjöf, þar af meira en helmingur nýra. Um 3.800 fengu hjarta en eftirspurnin er mun meiri en framboðið. Talið er að um það bil tugur einstaklinga sem bíður eftir líffæragjöf láti lífið á hverjum degi.

„Þetta er tímamótaviðburður,“ hefur New York Times eftir David Klassen, líffæraskurðlækni og yfirlækni United Network for Organ Sharing. „Dyr eru að opnast sem ég tel að muni leiða til stórfelldra breytinga í því hvernig við meðhöndlum líffærabilun.“

Klassen varar þó við því að enn eigi eftir að yfirstíga margar hindranir og bendir á að oftsinnis hafni líffæraþegar nýjum líffærum jafnvel þótt þau séu úr manneskju og hafi verið metinn þannig að þau hæfðu þeganum.

„Það er mikið gert úr svona viðburðum í fjölmiðlum og það er mikilvægt að horfa á þetta í samhengi,“ segir Klassen. „Það tekur langan tíma að fullþróa meðferð sem þessa.“

Bennett er enn tengdur við þær vélar sem héldu honum á lífi fyrir aðgerðina en það er ekki óvenjulegt í tilfellum sem þessum. Nýja hjartað virkar og virðist gera allt sem það þarf að gera til að viðhalda lífi. Vel er fylgst með merkjum þess að líkami Bennett sé að hafna líffærinu en ekkert bendir til þess og liðu hinir 48 krítísku tímar eftir aðgerð án uppákoma.

Til stendur að aftengja hann vélunum síðar í dag.

Erfðapúsl til að koma í veg fyrir höfnun

Hjartalokur úr svínum hafa löngum verið græddar í menn og þá hafa sjúklingar með sykursýki fengið brisfrumur úr svínum. Húð dýranna hefur einnig verið notuð til að hjálpa sjúklingum með alvarleg brunasár.

Einræktun og genatækni hafa hins vegar opnað nýjar dyr og gert það að verkum að vísindamenn hafa getað gert erfðabreytingar til að draga úr líkunum að mannslíkaminn hafni líffærum úr svínum. Vonir standa til um að þessi nýja tækni muni gera það að verkum að hægt verður að koma til móts við alla þá sem vantar ný líffæri, um leið og þau vantar.

Svínshjartað kom úr svíni frá fyrirtækinu Revivicor en gerðar höfðu verið tíu erfðabreytingar á dýrinu. Fjögur gen voru gerð óvirk, þeirra á meðal eitt sem hefur áhrif á sameind sem býr til öflugt höfnunarviðbragð í mannslíkamanum. Þá var vaxtargen gert óvirkt til að koma í veg fyrir að hjartað héldi áfram að stækka eftir aðgerðina.

Sex genum úr mannslíkamanum var bætt við erfðamengi svínsins í þeim tilgangi að draga úr líkunum á því að líkami líffæraþegans hafnaði nýja hjartanu. Þessu til viðbótar fær Bennett lyf til að bæla ónæmiskerfið og þá var nýr búnaður notaður til að varðveita hjartað fram að aðgerðinni.

Að sögn Griffith þurfti að grípa til hinna og þessara ráða til að láta svínshjartað passa í Bennett, þeirra á meðal „snjallra lýtalækninga“. Þegar blóðflæði var komið á til hjartans fór það hins vegar „strax í gang“ og „dýrahjartað hóf að dæla“.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×