Erlent

Rússneskur kafbátur lenti á hljóðsjá breskrar freigátu

Samúel Karl Ólason skrifar
Freigátan HMS Northumberland.
Freigátan HMS Northumberland. Getty/Andy Butterton

Þegar áhöfn tundurspillisins HMS Northumberland var að leita að rússneskum kafbáti í Norður-Atlantshafi kom það þeim verulega á óvart þegar kafbáturinn sigldi á hljóðsjá skipsins. Talið er öruggt að um slys hafi verið að ræða.

Atvikið fangaðist á myndband þar sem starfsmenn Channel 5 sjónvarpsstöðvarinnar voru um borð að vinna að heimildarmynd. Þetta var í lok árs 2020 en hefur aldrei verið staðfest fyrr en nú, samkvæmt frétt BBC.

Kafbáturinn hafði fundist með því að nota hljóðsjá freigátunnar, sem er nokkurs konar löng slanga sem inniheldur hágæða hljóðnema og skynjara sem notaðir eru til að finna kafbáta.

Áhöfn freigátunnar hafði svo misst af kafbátnum og var verið að leita hans aftur þegar sjónpípa sást skammt frá. Kafbáturinn hvarf svo aftur undir yfirborðið skömmu áður en mikið högg barst frá hljóðsjánni.

„Djöfulinn var þetta,“ heyrðist sjóliði segja.

Ekki liggur fyrir hvort skemmdir hafi orðið á kafbátnum en BBC segir hljóðsjá Northumberland hafa skemmst töluvert.

Þá segir miðillinn að ferðum rússneskra kafbáta um Norður-Atlantshafi hafi farið fjölgandi á undanförnum árum.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×