Enski boltinn

Coutinho snýr aftur í enska boltann

Sindri Sverrisson skrifar
Philippe Coutinho er með samning við Barcelona sem gildir til sumarsins 2023.
Philippe Coutinho er með samning við Barcelona sem gildir til sumarsins 2023. Getty/Eric Alonso

Steven Gerrard, knattspyrnustjóri Aston Villa, hefur fengið fyrrverandi liðsfélaga sinn hjá Liverpool að láni frá Barcelona.

Brasilíski miðjumaðurinn Philippe Coutinho mun leika með Villa sem lánsmaður frá Barcelona út þessa leiktíð. 

Félagaskiptafréttaveitan Fabrizio Romano greinir frá þessu á Twitter. Hann segir að Villa muni greiða bróðurpart launa Coutinho.

Coutinho lék síðast í ensku úrvalsdeildinni á árunum 2013-2018 með Liverpool og var þá liðsfélagi Gerrards þar til að sá síðarnefndi fór til Bandaríkjanna árið 2015 áður en hann lagði svo skóna á hilluna og gerðist knattspyrnustjóri.

Coutinho, sem er 29 ára, var kallaður töframaðurinn þegar hann lék með Liverpool. Hann skoraði 13 mörk í ensku úrvalsdeildinni tímabilið 2016-17 og hafði skorað sjö mörk í 14 deildarleikjum veturinn þar á eftir, áður en hann fór til Barcelona á miðju tímabili fyrir háa summu. 

Coutinho hefur hins vegar ekki fest sig í sessi hjá Barcelona, og lék eitt tímabil sem lánsmaður hjá Bayern München. Hann hefur byrjað fimm deildarleiki á þessu tímabili á Spáni, leikið alls 12 deildarleiki, og skorað í þeim tvö mörk.


Tengdar fréttir

Gerrard gæti endurnýjað kynnin við gamlan liðsfélaga

Framtíð brasilíska knattspyrnumannsins Philippe Coutinho hjá Barcelona hefur verið í umræðunni síðustu daga og leikmaðurinn hefur verið orðaður við ýmis félög á Englandi. Þar á meðal er Aston Villa, en Coutinho lék með stjóra liðsins, Steven Gerrard, hjá Liverpool á sínum tíma.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×