Enski boltinn

Gerrard gæti endurnýjað kynnin við gamlan liðsfélaga

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Steven Gerrard og Philippe Coutinho léku saman með Liverpool í tvö og hálft ár á sínum tíma.
Steven Gerrard og Philippe Coutinho léku saman með Liverpool í tvö og hálft ár á sínum tíma. John Powell/Liverpool FC via Getty Images

Framtíð brasilíska knattspyrnumannsins Philippe Coutinho hjá Barcelona hefur verið í umræðunni síðustu daga og leikmaðurinn hefur verið orðaður við ýmis félög á Englandi. Þar á meðal er Aston Villa, en Coutinho lék með stjóra liðsins, Steven Gerrard, hjá Liverpool á sínum tíma.

Meðal liða sem Coutinho hefur verið orðaður við eru Lundúnaliðin Arsenal og Tottenham, en nú berast fregnir af því að Aston Villa gæti blandað sér í baráttuna.

Coutinho og Gerrard léku saman hjá Liverpool frá 2013 til 2015 og voru hársbreidd frá því að vinna ensku úrvalsdeildina saman árið 2014.

Gerrard vill þó ekki gefa neitt upp um það hvort að eitthvað sé til í þessum sögusögnum, en segir þó að Coutinho sé einstakur fótboltamaður.

„Hann er leikmaður sem ég ber gríðarlega virðingu fyrir, en ég vil ekki ýta undir þessa orðróma þar sem hann er í eigu Barcelona,“ sagði Gerrard á blaðamannafundi í gær.

„Ég held að maður fái ekki viðurnefnið „Töframaðurinn“ (e. The Magician) án þess að vera einstakur fótboltamaður.“

„Ég hef ekkert nema jákvæða hluti að segja um leikmanninn. Hann er vinur minn þannig að ef að ég fæ spurningar um hann þá get ég talað um hann eins lengi og þið viljið. En ef að þið eruð að reyna að veiða eitthvað upp úr mér þá eigum við langan dag framundan,“ sagði Gerrard að lokum léttur í bragði.

Coutinho gekk til liðs við Liverpool í janúar árið 2013 frá ítalska liðinu Inter og lék þá með Gerrard í tvö og hálft ár áður en sá síðarnefndi hélt til LA Galaxy árið 2015.

Brasilíumaðurinn spilaði með Liverpool til ársins 2018, en þá var hann keyptur til Barcelona á 142 milljónir punda. Hann hefur þó ekki staðið undir væntingum og er sagður vera að leita sér að nýrri áskorun.

Þrátt fyrir að hafa ekki staðið undir væntingum hefur Coutinho tekist að vinna spnsku deildina í tvígang með Barcelona, sem og spænska bikarinn Copa del Rey.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×