Erlent

Dómarinn á báðum áttum vegna sam­komu­lagsins við Ep­stein

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Lögmenn Andrésar prins vinnna hörðum höndum að því að fá máli Virginiu Giuffre á hendur honum vísað frá.
Lögmenn Andrésar prins vinnna hörðum höndum að því að fá máli Virginiu Giuffre á hendur honum vísað frá. EPA-EFE/WILL OLIVER

Dómari í máli Virginiu Giuffre gegn Andrési prins virðist á báðum áttum þegar kemur að tilraun lögmanna Andrésar til að nýta sér gamalt samkomulag Giuffre við Jeffrey Epstein til að fá málinu vísað frá dómstólum. Dómarinn er þó sagður hafa virst efins um þessa túlkun lögmanna prinsins.

Lögmenn Giuffre og Andrésar takast nú á fyrir dómstóli í New York í Bandaríkjunum um hvort samkomulag sem Giuffre gerði við Epstein árið 2009 nái einnig til Andrésar.

Í grófum dráttum snerist samkomulagið um að Giuffre samþykkti að falla frá máli hennar gegn Epstein, en hún sakaði hann um kynferðisofbeldi og kynlífsþrælkun. Samkomulagið náði til Epsteins og annarra mögulegra sakborninga. Í staðinn fékk hún fimm hundruð þúsund dollara, um 65 milljónir króna á gengi dagsins í dag.

Lögmenn Andrésar halda því fram að samkomulagið frá 2009 gildi um Andrés, þar sem hann flokkist sem annar mögulegur sakborningur. Krefjast þeir því að málinu verði vísað frá á þeim grundvelli að Giuffre geti ekki lögsótt Andrés vegna samkomulagsins.

Lögmenn Giuffre halda því hins vegar fram að samkomulagið taki ekki til Andrésar, þar sem hann hafi ekki verið sá sem hafi hneppt Giuffre í kynlífsþrælkun. Hann sé frekar einstaklingur sem hafi nýtt sér kynlífsþrælkun Giuffre.

Segist skilja bæði sjónarmið

Lewis Kaplan, dómari í málinu, virtist á báðum áttum hvor túlkunin ætti við þegar tekist var á um málið í dómsal í dag. Í frétt AP vegna dómsmálsins segir þó að dómarinn hafi virst hallast frekar að túlkun lögmanna Giuffre.

„Við erum að tala um hvort að það eru tvær eða fleiri raunhæfar túlkanir á þessu samkomulagi,“ sagði Kaplan við lögmann Andrésar. „Ég skil hvert þú ert að fara. Ég skil líka hitt sjónarmiðið.“

Kaplan reiknar með að úrskurða um gildi samkomlagsins í náinni framtíð. Verði kröfu lögfræðinga Andrésar vísað frá og samkomulagið ekki talið ná til Andrésar er reiknað með að aðalmeðferð geti farið fram næsta haust.

Giuffre steig fram í sviðsljósið árið 2019 þegar hún sagði Epstein hafa skipað henni að stunda kynlíf með valdamiklum mönnum þegar hún var aðeins sautján ára gömul. Á meðal þeirra hafi verið Andrés prins, sem hún segir hafa verið virkan þátttakanda í misnotkun og ofbeldi af hálfu Epstein, sem lést árið 2019 í fangaklefa.

Giuffre hefur kært Andrés fyrir að hafa brotið gegn sér kynferðislega þrisvar sinnum á meðan hún var enn undir lögaldri. Prinsinn hefur staðfastlega neitað ásökununum og segist ekki muna eftir því að hafa verið kynntur fyrir Giuffre, þrátt fyrir að mynd sé til af þeim saman.


Tengdar fréttir

Lögmenn Andrésar prins krefjast frávísunar

Andrés prins, sonur Elísabetar Englandsdrottningar, krefst frávísunar í kynferðisbrotamáli. Prinsinn er sakaður um að hafa misnotað hina 38 ára gömlu Virginu Giuffre þegar hún var táningur. Prinsinn hefur ávallt neitað sök í málinu.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.