Erlent

Lögmenn Andrésar fá trúnaðarsamning Giuffre og Epstein afhentan

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Andrés hefur sagt að hann muni ekki eftir því að hafa verið kynntur fyrir Giuffre.
Andrés hefur sagt að hann muni ekki eftir því að hafa verið kynntur fyrir Giuffre.

Dómstóll í Bandaríkjunum hefur heimilað að samningur milli Virginiu Giuffre og athafnamannsins Jeffrey Epstein, sem trúnaður hefur ríkt um, sé afhentur lögmönnum Andrésar Bretaprins. 

Giuffre hefur kært Andrés fyrir að hafa brotið gegn sér kynferðislega þrisvar sinnum á meðan hún var enn undir lögaldri. Prinsinn hefur staðfastlega neitað ásökununum og segist ekki muna eftir því að hafa verið kynntur fyrir Giuffre, þrátt fyrir að mynd sé til af þeim saman.

Sættir náðust milli Giuffre og Epstein árið 2009 eftir að Guiffre sakaði fjárfestinn um kynferðisbrot en lögmenn Andrésar segja sáttina fría alla aðra tengda Epstein ábyrgð. 

Giuffre heldur því fram að hún hafi verið neydd til að stunda kynlíf með prinsinum af hálfu Epstein en mennirnir tveir voru vinir. Þá segir hún Andrés hafa vitað að hún hafi verið undir lögaldri og fórnarlamb mansals.

Lögmenn Giuffre höfðu lagt blessun sína yfir að lögmenn prinsins fengju samkomulagið afhent og segja það ekki munu hafa nein áhrif á málaferlin. Lögmenn Andrésar segja hins vegar að Giuffre hafi fallist á það við gerð samkomulagsins að höfða ekki mál gegn neinum sem tengdist Epstein.

Þar sem samkomulagið var innsiglað liggur ekki fyrir nákvæmlega hvernig umrætt ákvæði kann að hafa verið orðað, sem kann að skipta sköpum. 


Tengdar fréttir

Búið að birta Andrési stefnu með lögmætum hætti

Lögmenn Andrésar Bretaprins í Bandaríkjunum hafa gengist við því að honum hafi nú verið birt stefna með réttum hætti, í máli sem Virginia Giuffre hefur höfðað gegn honum. Giuffre sakar hertogann af Jórvík um kynferðisbrot og aðild að mansali.

Ásakandi Andrésar getur birt honum stefnu vestra

Dómari í New York í Bandaríkjunum komst að þeirri niðurstöðu að kona sem sakar Andrés prins um að hafa níðst á sér þegar hún var undir lögaldri geti birt honum stefnu þar vestra. Lögmenn Andrésar reyna að þræta fyrir að honum hafi verið birt stefna konunnar í Bretlandi á lögmætan hátt.

Getur ekki falið sig á bakvið „auð og vald og hallarveggi“

Hertoginn af York getur ekki falið sig á bakvið „auð og hallarveggi“ og verður að svara þeim ásökunum sem á hann hafa verið bornar fyrir bandarískum dómstólum. Þetta segir lögmaður Virginiu Giuffre, sem hefur sakað Andrés Bretaprins um nauðgun.

Andrés prins kærður fyrir nauðgun

Andrés prins, sonur Elísabetar Englandsdrottningar, hefur verið kærður fyrir kynferðisofbeldi. Kærandi í málinu er Virginia Giuffre, sem segir brot Andrésar gegn sér hafa átt sér stað þegar hún var sautján ára gömul.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.