Erlent

Halda nöfnum gesta leyndum til að koma í veg fyrir mismunun

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Breytingin nær aðeins til Oregon.
Breytingin nær aðeins til Oregon. Getty

Forsvarsmenn Airbnb hafa ákveðið að halda nöfnum gesta í Oregon í Bandaríkjunum leyndum þar til bókun þeirra hefur verið staðfest af gestgjafa. Þetta er gert til að tryggja að gestgjafar mismuni ekki gestum á grundvelli kynþáttar.

Ákvörðun fyrirtækisins má rekja til dómsmáls sem þrjár svartar konur frá Portland höfðuðu gegn fyrirtækinu, þar sem þær sögðu birtingu nafna og mynda á síðunni opna á mismunun. Nafna og myndbirtingin bryti í bága við ströng lög Oregon ríkis um gistiþjónustu, þar sem tekið væri sérstaklega á mismunun.

Sátt náðist í málinu árið 2019 en Airbnb tilkynnti í vikunni að frá og með 31. janúar næstkomandi myndu gestgjafar í Oregon aðeins sjá upphafsstafi mögulegra gesta, þar til þeir væru búnir að samþykkja bókun þeirra. 

Verklagsreglurnar nýju munu gilda í að minnsta kosti tvö ár.

Fyrirtækið hefur margsinnis verið sakað um að standa ekki nógu vel að málum og leyfa mismunun að grassera. Margir svartir notendur hafa greint frá því að hafa ekki getað bókað gistingu þar til þeir breyttu notendanafninu sínu eða skiptu um mynd.

Gagnrýnendur segja stefnubreytinguna góða byrjun en Johnny Mathias, framkvæmdastjóri baráttusamtakanna Color of Change, bendir á að svo heppilega hafi viljað til að lögin í Oregon hafi tekið afgerandi á mismunun. 

Koma muni í ljós hvaða áhrif breytingin muni hafa en það sé afar mikilvægt að „mæla“ mismunun til að geta tekið á henni. Þar ættu öll tæknifyrirtæki að axla ábyrgð.

Umfjöllun Guardian.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.