Enski boltinn

„Wolves er besta liðið sem við höfum spilað við“

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Ralf Rangnick, bráðabirgðastjóri Manchester United, segir að Wolves hafi átt skilið að vinna í kvöld.
Ralf Rangnick, bráðabirgðastjóri Manchester United, segir að Wolves hafi átt skilið að vinna í kvöld. Matthew Ashton - AMA/Getty Images

Manchester United tapaði sínum fyrsta deildarleik undir stjórn Ralf Rangnick er liðið tók á móti Wolves í ensku úrvalsdeildinni í kvöld. Lokatölur urðu 0-1 og Þjóðverjinn segir liðið ekki hafa spilað vel.

„Við spiluðum alls ekki vel, hvorki sem einstaklingar né sem lið. Í fyrri hálfleik áttum við í miklum vandræðum með að halda þeim frá okkar marki,“ sagði Rangnick í samtali við Sky Sports að leik loknum.

Hann segist hafa breytt um uppstillingu í síðari hálfleik og að það hafi breytt leiknum, en að markið sem skildi liðin að hafi verið vonbrigði.

„Í seinni hálfleik breyttum við til og spiluðum með þrjá miðverði og náðum meiri stjórn á leiknum. Við áttum síðan góðan 15 mínútna kafla þar sem við hefðum getað skorað. Markið sem við fengum á okkur, við vorum með nógu marga leikmenn inni í okkar vítateig. Fyrirgjöfin var skölluð frá af Phil Jones, en markið sem við fengum á okkur var eins og allt of mörg önnur á þessu tímabili.“

„Moutinho gat skotið óáreittur og án vandræða, án pressu. Við vorum mjög vonsviknir með úrslitin og stóran hluta af okkar frammistöðu.“

Rangnick hrósaði þó andstæðingum kvöldsins og segir þá hafa átt sigurinn skilinn.

,Þeir spila með fjóra eða fimm á miðri miðjunni og við áttum í vandræðum með að stjórna þeim hluta vallarins. Við breyttum svo um kerfi og náðum meiri stjórn á leiknum og gáfum þeim ekki jafn mörg færi. En við klikkuðum á okkar færum og þeir áttu skilið að vinna.“

„Wolves er besta liðið sem við höfum spilað við. Við áttum í meiri vandræðum í dag en í öðrum leikjum,“ bætti Rangnick við.


Tengdar fréttir
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.