Moutinho tryggði Úlfunum stigin þrjú

Joao Moutinho fagnar sigurmarki kvöldsins.
Joao Moutinho fagnar sigurmarki kvöldsins. Clive Brunskill/Getty Images

Joao Moutinho reyndist hetja Wolves er liðið vann 0-1 útisigur gegn Manchester United í ensku úrvalsdeildinni í kvöld.

Úlfarnir voru nokkuð ógnandi í fyrri hálfleik. Liðið átti til að mynda 15 skot á fyrstu 45 mínútum leiksins, en ekkert gestalið hefur átt fleiri skot gegn United á Old Trafford í það minnsta síðan tölfræðisíðan OptaJoe hóf starfsemi sína.

Hvorugu liðinu tókst hins vegar að brjóta ísinn í fyrri hálfleik og því var staðan 0-0 þegar gengið var til búningsherbergja.

Síðari hálfleikur var opnari en sá fyrri þar sem bæði lið áttu skot í þverslá. Bruno Fernandes skóflaði boltanum í slánna úr dauðafæri á 68. mínútu eftir fyrirgjöf frá Nemanja Matic og Romain Saiss setti boltann í slánna úr aukaspyrnu sjö mínútum síðar.

Það var svo ekki fyrr en að um átta mínútur voru til leiksloka sem að fyrsta og eina mark laiksins leit loksins dagsins ljós.

Adama Traore átti þá fyrirgjöf sem Phil Jones skallaði frá. Reyndar skallaði hann ekki lengra en beint fyrir lappir Joao Moutinho sem þakkaði fyrir sig með hnitmiðuðu skoti fyrir utan teig sem söng í netinu og staðan orðin 0-1.

Gestirnir frá Wolverhampton virtust svo líklegri til að bæta við á lokamínútunum, en allt kom fyrir ekki og niðurstaðan varð eins marks sigur gestanna.

Wolves situr nú í áttunda sæti ensku úrvalsdeildarinnar með 28 stig eftir 19 leiki, þremur stigum á eftir United sem situr í því sjöunda.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira