Erlent

Mæðgin sam­einuð eftir 30 ára að­skilnað

Smári Jökull Jónsson skrifar
Kortið sem Li Jingwei teiknaði.
Kortið sem Li Jingwei teiknaði. Vísir

Þegar Li Jingwei var fjögurra ára var honum rænt og hann seldur í mansal. Kort sem hann teiknaði og deildi á samfélagsmiðli leiddi til þess að móðir hans fannst.

Jingwei var rænt árið 1989 og þar sem hann var aðeins fjögurra ára mundi hann ekkert eftir heimahögum sínum. Eftir að hafa lesið fréttir um kínversk börn sem höfðu sameinast fjölskyldum sínum eftir margra ára aðskilnað ákvað hann að deila myndbandi á samfélagsmiðlinum Douyin sem er þekkt sem TikTok utan landamæra Kína.

Í myndbandinu sést kort af heimabænum sem hann teiknaði eftir minni. Á einhvern ótrúlegan hátt tókst lögreglu að para saman myndina við þorp í Kína. Eftir að hafa gengist undir DNA próf hitti hann loks móður sína á nýársdag eftir meira en þrjátíu ára aðskilnað. Þau ræddu saman í síma nokkrum dögum áður og Jingwei sagði að móðir hans hefði byrjað að gráta um leið og hún sá hann í símanum.

„Ég þekkti hana strax. Við erum með eins varir, jafnvel tennur,“ sagði hann í samtali við fjölmiðla.

Þegar honum var rænt var hann fluttur til fjölskyldu í Lankao sem er í meira en 1600 kílómetra fjarlægð frá æskuheimilinu. Hann notaði prik til þess að teikna myndir á jörðina svo hann myndi muna betur eftir sínum heimabæ.

„Ég gerði það að vana mínum að teikna að minnsta kosti einu sinni í dag.“ sagði hann og bætti við að hann hefði þekkt ýmis smáatriði.

„Ég þekkti trén, steinana, kýrnar og jafnvel vegina og hvar vatnið rann.“



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×