Enski boltinn

26 ára leikmaður Southampton leggur skóna á hilluna

Arnar Geir Halldórsson skrifar
Í leik á Old Trafford fyrir fjórum árum.
Í leik á Old Trafford fyrir fjórum árum. vísir/Getty

Enska úrvalsdeildarliðið Southampton hefur staðfest að hinn 26 ára gamli Sam McQueen hafi ákveðið að hætta knattspyrnuiðkun vegna meiðsla.

McQueen er fæddur árið 1995 en hann þótti efnilegur vinstri bakvörður á sínum yngri árum og var til að mynda hluti af U21 árs landsliði Englands á sínum tíma.

Hann komst að í akademíu Southampton átta ára gamall og var hluti af gríðarlega efnilegu unglingaliði hjá félaginu sem skartaði leikmönnum á borð við Luke Shaw, James Ward-Prowse og Calum Chambers svo einhverjir séu nefndir.

Hann lék sinn fyrsta leik í ensku úrvalsdeildinni haustið 2016; gerði skömmu síðar nýjan fimm ára samning við Southampton og framtíðin virtist björt. Í október 2018 meiddist McQueen illa í leik með Middlesbrough, þar sem hann lék sem lánsmaður og eru það meiðslin sem binda nú enda á knattspyrnuferil kappans.

Þrátt fyrir að hafa lagt hart að sér í endurhæfingu hefur McQueen ekki spilað leik aftur síðan hann meiddist og hefur nú ákveðið að snúa sér að öðrum hlutum eftir átján ára veru hjá Southampton.

McQueen er kvaddur með virktum á samfélagsmiðlum Southampton en þar þakkar hann jafnframt félaginu fyrir mikinn stuðning á undanförnum árum.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.