Erlent

Ó­míkron­smitaður plötu­snúður gagn­rýndur fyrir sótt­varna­brot á Nýja-Sjá­landi

Atli Ísleifsson skrifar
DJ Dimension átti að skemmta á áramótafögnuði í Auckland. Myndin er af tónleikum hans í London fyrr í mánuðinum.
DJ Dimension átti að skemmta á áramótafögnuði í Auckland. Myndin er af tónleikum hans í London fyrr í mánuðinum. Instagram

Breski plötusnúðurinn DJ Dimension, sem sagður er hafa verið fyrsti smitaði einstaklingurinn af ómíkronafbrigði kórónuveirunnar í Nýja-Sjálandi, hefur sætt mikilli gagnrýni fyrir að hafa brotið gegn ströngum sóttvarnareglum landsins.

Nýsjálenskir ráðherrar hafa lýst yfir „vonbrigðum“ með gjörðir plötusnúðsins, sem heitir Robert Etheridge réttu nafni, en hann braut gegn reglum um einangrun og greindist síðar með ómíkronafbrigði veirunnar. Er talið að um fyrsta innanlandssmitið í Nýja-Sjálandi sé að ræða þar sem viðkomandi greinist með ómíkronafbrigðið.

DJ Dimension ferðaðist frá Bretlandi til Nýja-Sjálands til að troða upp á áramótafögnuði. Segja talsmenn nýsjálenskra heilbrigðisyfirvalda að plötusnúðurinn hafi lokið tíu daga einangrun eftir komuna til landsins en sleppt því að fara í sýnatöku á síðasta degi einangrunar. Hann reyndist smitaður og hélt á veitingastaði, bari og næturklúbba í Auckland.

Etheridge hefur beðist afsökunar á málinu á samfélagsmiðlum þar sem hann segist einnig hafa fengið fjölda hatursskilaboða eftir að hann var nafngreindur í nýsjálenskum fjölmiðlum sem fyrsta ómíkrontilfelli landsins.

Kortleggja ferðir mannsins

Chris Hipkins, ráðherra viðbrigðsmála vegna Covid-19, sagði á fréttamannafundi að gjörðir Etheridge hafi valdið vonbrigðum. Enn sé unnið að því að kortleggja ferðir mannsins og fjölda þeirra sem hann hafi verið í samskiptum við.

„Varðandi ómíkron, þá erum við ekki með þetta hér, við viljum ekki fá þetta hingað og umburðarlyndi okkar hvað svona hluti varðar er mjög lítið,“ sagði Hipkins.

Nýsjálendingar hafa verið með harðar sóttvarnareglur og samkomutakmarkanir í gildi allt frá upphafi faraldursins. Hafa alls 13.687 manns greinst með kórónuveiruna í landinu frá upphafi og hefur 51 dauðsfall verið rakið til Covid-19. Níutíu prósent landsmanna teljast nú fullbólusettir.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×